„Þetta eru mikil tímamót. Bjarni er búinn að vera formaður flokksins síðan 2009 og það hefur enginn gegnt formennsku lengur en hann, nema Ólafur Thors. Hann er búinn að vera ráðherra síðan 2013 og það má segja að hann hafi verið helsti valdamaður landsins í meira en áratug. Þannig að það eru mikil tíðindi þegar hann hættir,“ segir Ólafur Þ. Harðarson stjórnmálafræðiprófessor emeritus.
Ólíklegt að Bjarni vildi leiða stjórnarandstöðuna
Nú fari þeir sem áhuga hafi á formannsembættinu í startholurnar. Slagurinn um embættið verði snarpur fram að landsfundi, sem fyrirhugaður er í lok febrúar, að öllu óbreyttu.
Ólafur segist hafa átt von á því að Bjarni myndi láta gott heita að loknum kosningunum í nóvember.
„Mér þótti ekki líklegt að Bjarni hefði áhuga á því að verða leiðtogi stjórnarandstöðunnar, hafandi verið ráðherra í á annan áratug.“
Nefnir fjóra mögulega arftaka
Forvitnilegt verði að sjá hver taki við stjórnartaumunum í Valhöll. Þó nokkrir kandídatar komi til greina.
„Það verður líka mjög fróðlegt að sjá hvernig Sjálfstæðisflokknum tekst að fóta sig í stjórnarandstöðunni. Það er hlutverk sem hann er alls ekki vanur. Og líka fróðlegt að sjá hvort nýr formaður muni leiða flokkinn nær miðjunni eða hvort hann muni kannski auka frjálshyggjuáherslur og gera flokkinn líkari Miðflokknum. Það held ég að sé alveg opin spurning,“ segir Ólafur.
Hann telur útilokað að segja til um hver muni hreppa embættið þegar upp verður staðið.
„Það hafa þrjár konur verið nefndar: Þórdís Kolbrún, Áslaug Arna og Guðrún Hafsteinsdóttir. Síðan eru menn líka að velta fyrir sér hvort Guðlaugur Þór gefi kost á sér, og menn skyldu aldrei vanmeta hann. Ég held að á þessu stigi sé ómögulegt að segja hvert þeirra sé líklegast til að verða formaður.“