Sport

Öruggt hjá Bunting og Littler frá­bær gegn Aspinall

Smári Jökull Jónsson skrifar
Hinn 17 ára gamli Luke Littler er vinsæll í Alexandra Palace.
Hinn 17 ára gamli Luke Littler er vinsæll í Alexandra Palace. Vísir/Getty

Stephen Bunting er kominn í undanúrslit heimsmeistaramótsins í pílukasti eftir nokkuð þægilegan sigur á Peter Wright. Þá vann Luke Little góðan sigur á Nathan Aspinall.

Stephen Bunting hefur spilað vel á heimsmeistaramótinu í pílukasti en þessi viðkunnalegi Liverpoolbúi hefur heillað marga með spilamennsku sinni. Hann mætti hinum yfirlýsingaglaða Peter Wright sem sló meðal annars út heimsmeistarann Luke Humphries á leið sinni í 8-manna úrslit.

Butning hóf leikinn af miklum krafti. Hann vann sex af fyrstu átta leggjum viðureignarinnar og komst í 2-0 í settum. Þriðja settið var æsispennandi en Bunting vann það einnig og hann valtaði yfir Wright í fjórða setti og vann örugglega.

Hann var því kominn í 4-0 í settum og aðeins einu setti frá því að sópa Peter Wright úr leik. Þá vaknaði hins vegar Wright. Hann vann næstu tvö sett en lenti 2-0 undir í sjöunda settinu.

Þá gat hann komið sér aftur inn í leikinn en klikkaði hins vegar í tvígang þegar hann reyndi við tvöfaldan tuttugu og Butning nýtti sér það. Hann vann settið 3-0 og leikinn 5-2.  Bunting er þar með kominn í undanúrslit í annað sinn á ferlinum en hann gerði slíkt hið sama árið 2021.

Í seinni leik kvöldsins var komið að stórstjörnunni Luke Littler en hann mætti Nathan Aspinall. Svipað var uppi á teningunum og í fyrri viðureign kvöldsins. Luke Littler virtist ætla að fara auðveldlega í gegnum Aspinall í upphafi en í stöðunni 2-0 náði Aspinall nokkuð óvænt að vinna þriðja settið og minnka muninn.

Í fjórða settinu fór Aspinall illa með tækifæri til að jafna metin í 2-2 en virtist á köflum eiga erfitt með að halda einbeitingu og það þýðir ekki gegn Little. Little vann næstu tvö sett og komst í 4-1 en Aspinall minnkaði muninn í 4-2.

Í sjöunda settinu var Little hins vegar kominn með nóg, kláraði settið örugglega og leikinn 5-2. Littler er þar með kominn í undanúrslit þar sem hann mætir Stephen Bunting. Littler spilaði frábærlega í kvöld og í tíu skipti þurfti hann tólf pílur eða minna til að vinna legg. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×