Sport

Hrasaði viljandi og sló alla út af laginu

Valur Páll Eiríksson skrifar
Goff og Gibbs hrundu báðir í gær, sem var viljandi gert og skilaði snertimarki.
Goff og Gibbs hrundu báðir í gær, sem var viljandi gert og skilaði snertimarki. Michael Reaves/Getty Images

Taktar félaganna Jared Goff og Jahmyr Gibbs í liði Detroit Lions í öruggum sigri liðsins á Chicago Bears í NFL-deildinni í gær hafa vakið töluverða lukku. Báðir féllu þeir viljandi við til að slá vörn Bjarnanna út af laginu, sem skilaði snertimarki.

Goff sagði í viðtali eftir leik að fallið hafi vissulega verið viljandi, hann hrasaði og Gibbs hrundi í jörðina á sama tíma. Það sló vörn Chicago-liðsins út af laginu og Goff fann innherjann Sam LaPorta einn og yfirgefinn í endamarkinu.

Goff kveðst hafa æft verknaðinn þrisvar til fjórum sinnum í vikunni og árangurinn lét ekki á sér standa. Sóknarþjálfarinn Ben Johnson á að hafa heillast af kasti Jordans Love, leikstjórnanda Green Bay Packers, gegn Bears fyrr í vetur. Love hrasaði þá áður en hann fann liðsfélaga sinn.

Johnson ákvað að reyna við að gera þetta viljandi gegn Bears-vörninni og það skilaði sjö stigum á töfluna. Lions unnu öruggan 34-17 sigur í Chicago og hafa nú unnið 13 af 15 leikjum liðsins á leiktíðinni. Lions berjast við Minnesota Vikings um toppsæti NFC-norður riðilsins en Minnesota vann einnig sinn 13. leik, 27-24 gegn Seattle Seahawks í gær.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×