Viðskipti innlent

Raf­orka til gagna­vera snar­minnkað

Kjartan Kjartansson skrifar
Landsvirkjun selur nú gagnaverum aðeins þriðjung þeirrar raforku sem hún gerði árið 2022. Myndin er úr safni.
Landsvirkjun selur nú gagnaverum aðeins þriðjung þeirrar raforku sem hún gerði árið 2022. Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Gagnaver notuðu sextíu prósent minni raforku á þessu ári en í fyrra. Landsvirkjun hefur dregið úr sölu til gagnavera vegna þröngrar stöðu í raforkukerfinu en notkunin hefur einnig dregist saman þar sem rafmyntagröftur er á hraðri útleið.

Sala Landsvirkjunar á raforku til gagnavera hefur dregist saman enn meira en þau sextíu prósent sem Orkustofnun segir að raforkunotkun þeirra hafi dregist saman um á þessu ári. Hún er nú um þriðjungur af því sem hún var árið 2022, að því er kemur fram í grein sem Tinna Traustadóttir, framkvæmdastjóri sölu og þjónustu hjá fyrirtækinu, skrifar á Vísi í dag.

Samdrátturinn skýrist meðal annars af því að starfsemi gagnaveranna hefur tekið breytingum upp á síðkastið þar sem áhersla er nú lögð á gervigreind og þjónustu við viðskiptavini sem þurfa gagnageymslu og mikla reiknigetu í staðinn fyrir rafmyntagröft sem er tvöfalt orkufrekari.

Orkunotkunin dragist einnig saman þar sem það taki gagnaverin tíma að afla nýrra viðskiptavina og uppfæra aðstöðu sína.

Tinna segir að væntingar standi til þess að gagnaversstarfsemi vaxi margfalt borið saman við aðra geira á næstu árum. Gagnaver noti nú þegar um 1,5 prósent raforku í heiminum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×