Lyklaskipti fóru fram í fjármálaráðuneytinu í dag líkt og í öðrum ráðuneytum og fór vel á með nýjum og fráfarandi ráðherra. „Þú ferð að ná niður verðbólgunni og ég fer að lesa mig til um ála,“ sagði Sigurður Ingi.
Daði Már segir það góða tilfinningu að vera tekinn við lyklavöldum og hlakkar til framhaldsins. „Það eru auðvitað krefjandi verkefni framundan en ég mun takast á við þau og er mjög bjartsýnn og ánægður með að fá tækifæri til þess.“
Líkt og kunnugt er er Daði Már eini ráðherrann í nýrri ríkisstjórn sem ekki á sæti á Alþingi. Hann segist aðspurður munu kynna sig betur fyrir kjósendum.
„Auðvitað er það þannig að eitthvað hafa kjósendur séð til mín, ég hef verið í framboði og hef verið varaformaður í Viðreisn býsna lengi. En jú jú, sem fjármálaráðherra þarf ég auðvitað að vera þekktur gagnvart þjóðinni og það mun ég gera,“ sagði Daði.
Spurður hvað verði fyrsta mál á dagskrá ítrekaði Daði það sem fram kemur í stjórnarsáttmála um þá áherslu sem lögð verði á að ná niður vöxtum og verðbólgu. „Ná tökum á rekstri ríkissjóðs þannig að það geti stutt betur við það markmið okkar allra og Seðlabankans að ná niður vöxtum og verðbólgu fyrir heimilin og fyrirtækin svo að við getum dregið úr kostnaðinum sem allir eru að upplifa þessa daga,“ svaraði Daði.
Spurður hvort einhver sérstök þýðing væri að baki bókagjöfinni til Sigurðar Inga segir Daði svo ekki vera. „Nei þetta var nú bókstaflega skemmtilegasta bókin sem ég fékk um síðustu jól og hugsaði sem svo, Sigurð hef ég þekkt í allnokkurn tíma, að hann myndi kunna að meta hana,“ segir Daði.
Síðustu dagar hafa verið annasamir hjá nýjum ráðherra en á persónulegri nótum segist hann enn eiga eftir að afgreiða einhver verkefni tengd jólunum. „Ég rétt náði að kaupa jólatré og koma upp eins og tveimur seríum, þannig að nei, það er dálítill hali af óloknum jólaundirbúningi hjá mér. Hann sé sem betur fer bæði vel giftur og eigi dugleg börn sem hafi haldið áfram með jólaundirbúninginn en sjálfur ætlar hann að reyna að leggja sitt af mörkum til þess í kvöld.