Klakastífla myndaðist í ánni, sem er sú vatnsmesta á landinu. Það skilaði sér í gífurlega kröftugu rennsli upp á 2520 rúmmetra, langt yfir meðaltali, sem var 384 rúmmetrar á sekúndu. Áin flæddi yfir bakka sína og vatnshæðin náði 13,74 metrum yfir sjávarmáli. Afleiðingarnar voru hrikalegar.
Á dögunum birti Sighvatur Óttarr Elefsen meðfylgjandi myndir inni á facebookhópnum Selfoss- saga í myndum en þær sýna greinilega ummerki flóðsins Árflóðsins svokallaða.
Myndirnar eru úr safni Ebergs Elefsen, föður Sighvats en Eberg starfaði sem vatnamælingamaður hjá Vatnamælingum ríkisins í hartnær þrjá áratugi.
„Pabbi tók alla tíð mikið af myndum og byrjaði snemma að taka litmyndir. Eftir fráfall hans hef ég skannað allar myndirnar hans,“ segir Sighvatur í samtali við Vísi en hann hefur einnig afhent Héraðsskjalasafni Árnesinga myndirnar til varðveislu.
Líkt og sjá má á myndunum olli flóðið olli miklum skemmdum á mannvirkjum og íbúðarsvæðum á Selfossi, þar á meðal við kirkjuna og brúarstæði, og einnig víðsvegar um sveitir þar sem flóðið fór yfir.
Flóðið hefur síðan verið rannsakað sem dæmi um áhrif náttúruhamfara tengdum ísstíflum á flóðasvæðum og enn í dag, meira en hálfri öld seinna, má sjá merkingar á Ölfusárbrú um vatnshæðina í flóðinu.