Erlent

Bera til baka fregnir um að ferða­menn hafi veikt af menguðu á­fengi

Kjartan Kjartansson skrifar
Sitiveni Rabuka, forsætisráðherra Fídji, segir veikindin hafa verið bundin við eitt hótel og að Kyrrahafseyríkið sé öruggur áfangastaður fyrir ferðamenn.
Sitiveni Rabuka, forsætisráðherra Fídji, segir veikindin hafa verið bundin við eitt hótel og að Kyrrahafseyríkið sé öruggur áfangastaður fyrir ferðamenn. AP/Rick Rycroft

Ferðamálayfirvöld á Fídji segja að sjö erlendir ríkisborgarar sem veiktust eftir að þeir drukku hanastél á lúxushóteli hafi orðið fyrir eitrun af völdum tréspíra eða ólöglegra lyfja. Málið olli fjaðrafoki í eyríkinu sem reiðir sig að miklu leyti á ferðaþjónustu.

Sex Ástralir og einn Bandaríkjamaður voru lagðir inn á sjúkrahús eftir að þeir veiktust á Warwick-hótelinu, fimm stjörnu gististað við bæinn Sigatoka, á laugardag. Ferðamennirnir köstuðu upp og þjáðust af ógleði og taugakerfiseinkennum, að sögn heilbrigðisyfirvalda á eyjunni.

Fjölmiðlar sögðu frá því að grunur léki á því að fólkið hefði orðið fyrir eitrun af völdum mengaðs áfengis. Sex ferðamenn létu lífi eftir að þeir drukku áfenga drykki sem voru mengaðir með tréspíra í Laos í síðasta mánuði.

Nú fullyrðir Viliame R. Gavoka, ferðamálaráðherra Fídji, að engin merki um tréspíra eða ólögleg efni hafi fundist í áfenginu eða hráefnum sem voru notuð í hanastélin.

„Niðurstaðan að það séu engar vísbendingar um áfengiseitrun eru frábærar fréttir fyrir Fídji, sérstaklega fyrir lífsnauðsynlegan ferðamannaiðnaðinn okkar,“ sagði Gavoka, að sögn AP-fréttastofunnar.

Hann hvetur erlend ríki til þess að draga til baka viðvaranir til ríkisborgara sinna um hættuna sem fylgi áfengjum drykkjum á Fídji.

Mengað áfengi er vandamál á fjölda ferðamannastaða þar sem takmarkaðar reglur og eftirlit tíðkast. Þar er áfengi ýmist drýgt eða skipt alfarið út fyrir heimabruggaðan spíra sem getur reynst lífshættulegur fólki.


Tengdar fréttir

Hanastél á lúxus­hóteli talið hafa valdið eitrun

Lögreglan á Fídji rannsakar nú bráð veikindi sjö erlendra ríkisborgara á sama fimm stjörnu hótelinu. Talið er að fólkið hafi orðið fyrir eitrun af völdum áfengs hanastéls. Stutt er síðan erlendir ferðamenn létust af tréspíraeitrun í Laos.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×