Erlent

Óttast að mörg hundruð muni deyja vegna hvirfilbylsins Chido

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Björgunarsveitarmenn að störfum í Mayotte í dag eftir að Chido lagði heilu hverfin í rúst á eyjaklasanum.
Björgunarsveitarmenn að störfum í Mayotte í dag eftir að Chido lagði heilu hverfin í rúst á eyjaklasanum. AP

Óttast er að fjöldi látinna í franska eyjaklasanum Mayotte verði nokkur hundruð eftir að  hvirfilbylurinn Chido reið þar yfir á laugardagsnótt. Þegar eru ellefu látnir og um 250 slasaðir.

Heilu hverfin voru lögð í rúst þegar vindhviður af völdum Chido náðu allt að 220 km/klst, sem gerir rúmlega 61 m/s, í gærnótt. 

Samkvæmt innanríkisráðuneyti Frakklands er fjöldi látinna ellefu en landstjóri Mayotte, Francois-Xavier Bieuville, telur að fjöldinn verði „án ef nokkur hundruð“ þegar búið verður að meta heildarskaðann. Hann telur mögulegt að nokkur þúsund manns hafi látist. Hvirfilbylurinn er sá skæðasti í Mayotte í níutíu ár að sögn landstjórans.

Hlíð í Mayotte þar sem allt er í rúst.AP

Fátækasta svæði ESB orðið illa úti

Mayotte var akkúrat á miðri braut hvirfilbylsins Chido en eyjurnar Comoros og Madagascar fundu einnig fyrir áhrifum hans sem og Mozambík.

Að sögn Bieuville hafa fátækrahverfin orðið verst úti en þar búi fólk í járnskúrum og hálfgerðum hreysum. Hann segir að þegar fólk sjái ástandið þar sé ómögulegt að trúa því að aðeins ellefu séu látnir.

Frakkar hafa þegar send 250 björgunarsveitarmenn og hefur Macron Frakklandsforseti lýst því yfir að Frakkland muni hjálpa íbúum eyjaklasans.

Mayotte er í suðvesturhluta Indlandshafs undan ströndum Afríku og er fátækasta landsvæði Frakka og fátækasta svæðið í Evrópusambandinu. Um 300 þúsund búa á eyjunum tveimur sem mynda eyjaklasann. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×