Handbolti

Gísli og fé­lagar gerðu ljónin að kisum

Sindri Sverrisson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði eitt marka Magdeburg í dag og átti þrjár stoðsendingar, í stórsigri.
Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði eitt marka Magdeburg í dag og átti þrjár stoðsendingar, í stórsigri. Getty/Andreas Gora

Landsliðsmennirnir Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ýmir Örn Gíslason fögnuðu báðir sigri í dag í þýsku 1. deildinni í handbolta.

Gísli og félagar í Magdeburg spjöruðu sig vel í fjarveru Ómars Inga Magnússonar, sem er meiddur, og gjörsigruðu Rhein-Neckar Löwen í SAP Arena, heimavelli Ljónanna.

Staðan var orðin 18-10 fyrir Magdeburg í hálfleik og liðið vann að lokum ellefu marka sigur, 36-25.

Gísli skoraði eitt marka Magdeburg og átti þrjár stoðsendingar, en Philipp Weber var markahæstur með sjö mörk og þeir Manuel Zehnder og Albin Lagergren skoruðu sex mörk hvor. Hjá Löwen var Ivan Martinovic markahæstur með sjö mörk.

Ýmir Örn Gíslason og félagar í Göppingen unnu öllu tæpari sigur gegn Wetzlar.

Staðan í hálfleik var 12-12, og 17-17 þegar tuttugu mínútur voru eftir, en þá skoraði Göppingen fimm mörk í röð og vann svo að lokum 27-24.

Ýmir var ekki á meðal markaskorara Göppingen enda fyrst og fremst varnarmaður, en átti eina stoðsendingu í lokin.

Magdeburg er nú með 21 stig í 5. sæti deildarinnar, þremur stigum á eftir toppliði Melsungen, en Löwen með 16 stig í 7. sæti. Göppingen er með 10 stig og búið að jafna Wetzlar að stigum í 13.-14. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×