Erlent

Tvö á­kærð vegna grimmi­legs morðs tveggja ára barns

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Barnið lést af sárum sínum á sjúkrahúsi í Óðinsvéum í gær.
Barnið lést af sárum sínum á sjúkrahúsi í Óðinsvéum í gær. Getty

Karlmaður á sextugsaldri og kona á þrítugsaldri hafa verið ákærð fyrir stórfellda líkamsárás sem leiddi til andláts á Suður-Jótlandi vegna andláts tveggja ára barns.

Samkvæmt jóska miðlinum JydskeVestkysten lést barnið af höfuðkúpubroti og innvortis blæðingum í heila eftir að hafa verið slegið í höfuðið með óþekktu barefli. Lögregla rannsakar enn aðdraganda árásarinnar.

TV2 greinir frá því að barnið hafi verið lagt inn á Sydvestjysk Sygehus í Esbjerg og þaðan flutt á Háskólasjúkrahúsið í Óðinsvéum í gær þar sem það andaðist um fjögurleytið.

„Við hófum á laugardag rannsókn á andlátinu til að fá skýrari mynd af kringumstæðunum og höfum nú ákært þessa tvo einstaklinga,“ er haft eftir Brian Skovrup Christensen, varalögreglustjóra lögreglunnar á Suður-Jótlandi í fréttatilkynningu frá embættinu.

„Málið er enn til rannsóknar og við tjáum okkur ekki frekar um það vegna rannsóknarhagsmuna,“ segir hann.

Ekki hefur komið fram hvort barnið bindist hinum ákærðu fjölskylduböndum en þau fóru fyrir dómara í Esbjerg snemma í morgun. Bæði neita þau sök.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×