Körfubolti

„Fannst hann alltaf hitta þegar hann fékk boltann“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Lárus Jónsson, þjálfari Þórs Þorlákshafnar, var ánægður með varnarleik sinna manna í kvöld. Að mestu allavega.
Lárus Jónsson, þjálfari Þórs Þorlákshafnar, var ánægður með varnarleik sinna manna í kvöld. Að mestu allavega. vísir / Diego

Lárus Jónsson, þjálfari Þórs frá Þorlákshöfn, segist ekki vera hissa á því að það hafi reynst hans mönnum erfitt verkefni að landa ellefu stiga sigri gegn Álftanesi í Bónus-deild karla í körfubolta í kvöld.

„Við unnum bara gott lið. Þeir spila góða vörn og það er mjög erfitt að opna þá,“ sagði Lárus í leikslok. 

„Við erum líka að spila góða vörn á móti og við vissum alveg að það yrði erfitt að fara í einhvern „high-scoring“ leik á móti Álftanesi. Þeir eru mjög vel skipulagðir og sækja á mann inni í teig. Mér fannst David Okeke halda þeim inni í þessu. Hann var með fáránlega góða nýtingu og mér fannst hann bara alltaf hitta þegar hann fékk boltann. En mér fannst vörnin okkar mjög góð í þessum leik og hún eiginlega lokaði þessu í fjórða leikhluta.“

Það var þó einn varnarþáttur sem Lárus var ósáttur með hjá sínum mönnum, en Þórsarar létu gestina taka 15 sóknarfráköst í leiknum.

„Það verður til þess að þeir eru að taka fleiri skot heldur en við, en við nýtum skotin okkar aðeins betur. Okeke er að taka fjögur og svo eru margir sem eru að taka sóknarfráköst líka. Það eru eiginlega allir með allavega eitt sóknarfrákast. Við þurfum að bæta þetta.“ 

Þá segir hann einfalda ástæðu fyrir því að Nikolas Tomsick, sem hafði verið sjóðandi heitur í fyrri hálfleik, hafi nánast ekkert komið við sögu í þriðja leikhluta þegar Álftnesingar komust af alvöru aftur inn í leikinn.

„Hann var búinn að spila 17 mínútur í fyrri hálfleik þannig við bara ákváðum að hafa hann ferskann í fjórða.“

Að lokum segir hann liðið eiga erfitt verkefni fyrir höndum þegar Þórsarar sækja Keflvíkinga heim í lokaleik liðsins fyrir jól.

„Við erum náttúrulega að fara í mjög erfitt verkefni á móti Keflavík í síðasta leik fyrir jól. En okkur hlakkar til,“ sagði Lárus að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×