Íslenski boltinn

Mætti syni sínum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Feðgarnir Emil og Steinþór Freyr Þorsteinsson.
Feðgarnir Emil og Steinþór Freyr Þorsteinsson. kdn.is

Fyrrverandi atvinnu- og landsliðsmaðurinn Steinþór Freyr Þorsteinsson mætti syni sínum, Emil, í Kjarnafæðismótinu í gær.

KA 3 og Völsungur 2 leiddu saman hesta sína í B-deild Kjarnafæðismótsins í Boganum á Akureyri í gær.

Leikurinn var merkilegur fyrir þær sakir að þar mættust feðgarnir Steinþór og Emil. Steinþór, sem er 39 ára, leikur með Völsungi en hinn sextán ára Emil leikur með KA. Steinþór og félagar fögnuðu sigri í leiknum, 0-2.

Steinþór spilaði ekkert sumarið 2023 en gekk í raðir Völsungs fyrir síðasta tímabil. Hann spilaði tuttugu leiki með liðinu í 2. deild og skoraði þrjú mörk. Völsungar enduðu í 2. sæti og komust þar með upp í Lengjudeildina.

Völsungur er byrjaður að styrkja sig fyrir átökin sem framundan eru en félagið samdi við Elfar Árna Aðalsteinsson á dögunum. Hann hefur ekki leikið með Völsungi síðan 2011.

Steinþór sneri heim fyrir tímabilið 2017 eftir að hafa leikið sem atvinnumaður í Noregi og Svíþjóð í nokkur ár og gekk til liðs við KA. Steinþór er uppalinn hjá Breiðabliki en lék með Stjörnunni í eitt og hálft tímabil áður en hann hélt utan.

Steinþór hefur alls leikið 225 deildarleiki á Íslandi og skorað sextán mörk. Þá lék hann átta A-landsleiki á sínum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×