Innlent

Ríkur vilji til að styðja á­fram við bakið á Úkraínu

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Volodómír Selenskí ávarpaði þing Norðurlandaráðs í októbermánuði hér á landi.
Volodómír Selenskí ávarpaði þing Norðurlandaráðs í októbermánuði hér á landi. Vilhelm

Málefni Úkraínu, þróun mála í Sýrlandi og samskipti við Bandaríkin voru efst á baugi á fjarfundi norrænu utanríkisráðherranna sem fram fór í gær.

Í tilkynningu á vef stjórnarráðsins segir að ráðherrarnir hafi verið einhuga um mikilvægi þess að halda áfram dyggum stuðningi við Úkraínu í baráttu þeirra við innrásarher Rússa sem nú hafi staðið í meira en þúsund daga. Bent er á að Norðurlöndin hafi veitt Úkraínu stuðning á þessum tíma og að ríkur vilji sé hjá ríkjunum að honum verði framhaldið.

Fall Assad í Sýrlandi síðastliðna helgi var einnig til umræðu á fundinum, og ráðherrarnir segjast fylgjast náið með hvernig mál þróast þar á næstu misserum og hvort staðan komi til með að hafa áhrif á gang mála á Gaza og víðar.

Þá var áréttað mikilvægi þess að standa vörð um náið samstarf Norðurlandanna við Bandaríkin, nú þegar ný ríkisstjórn Donald Trumps er við það að taka við völdum.

Utanríkisráðherrar Norðurlandanna starfa náið saman undir formerkjum N5 en í dag var síðasti fundur þeirra á formennskuári Svíþjóðar. Finnland tekur við formennsku í norræna utanríkismálasamstarfinu á næsta ári.

„María Mjöll Jónsdóttir, skrifstofustjóri alþjóðapólitískra málefna, sótti fundinn fyrir hönd Íslands í fjarveru Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra,“ segir að lokum í tilkynningu á vef ráðuneytisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×