Viðskipti innlent

Fjöl­miðlar á lands­byggðinni fá rúma milljón hver

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Lilja Alfreðsdóttir er starfandi menningar- og viðskiptaráðherra.
Lilja Alfreðsdóttir er starfandi menningar- og viðskiptaráðherra. Vísir/Vilhelm

Ellefu einkareknir, sstaðbundnir fjölmiðlar utan höfuðborgarsvæðisins fá úthlutað styrkjum frá menningar- og viðskiptaráðuneytinu og innviðaráðuneytinu. Alls voru til úthlutunar 12,5 milljónir sem skiptast jafnt á milli allra miðla sem sóttu um og fær hver þeirra 1.136.363 krónur í sinn hlut.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá ráðuneyti Lilju Alfreðsdóttur, starfandi menningar- og viðskiptaráðherra en auglýst var eftir umsóknum um styrki þann 28. október. Umsóknarfrestur rann út þann 18. nóvember og uppfylltu allir umsækjendur skilyrði reglna um styrkveitingar til staðbundinna fjölmiðla.

Eftirfarandi miðlar styrk:

  • Akureyri.net, útgefandi Eigin herra ehf.
  • Eyjafréttir og Eyjafrettir.is, útgefandi Eyjasýn ehf.
  • Kaffid.is, útgefandi Kaffið fjölmiðill ehf.
  • Tígull og Tigull.is, útgefandi Leturstofan Vestmannaeyjum ehf.
  • Feykir og Feykir.is, útgefandi Nýprent ehf.
  • Skessuhorn og Skessuhorn.is, útgefandi Skessuhorn ehf.
  • Norðurslóð, útgefandi Spássía ehf.
  • Bæjarblaðið Jökull, útgefandi Steinprent ehf.
  • Austurglugginn og Austurfrett.is, útgefandi Útgáfufélag Austurlands ehf.
  • Vikublaðið, Dagskráin og Vikubladid.is, útgefandi Útgáfufélagið ehf.
  • Víkurfréttir og Vf.is, útgefandi Víkurfréttir ehf.

„Markmið með styrkveitingunum er að efla starfsemi staðbundinna fjölmiðla á landsbyggðinni en þeir gegna mikilvægu hlutverki við að tryggja aðgengi almennings að upplýsingum um menningar- og samfélagsmál og styðja með þeim hætti við lýðræðisþátttöku og menningarstarf,“ segir um styrkveitinguna í tilkynningu ráðuneytisins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×