Sport

Sýndi ljóta á­verka eftir fallið

Sindri Sverrisson skrifar
Mikaela Shiffrin birti myndir af miklum áverkum sem hún hlaut eftir fall í skíðabrekku.
Mikaela Shiffrin birti myndir af miklum áverkum sem hún hlaut eftir fall í skíðabrekku. Getty/Instagram

Skíðakonan Mikaela Shiffrin var flutt í burtu á sleða eftir afar slæmt fall í keppni í stórsvigi í Killington í Vermont í Bandaríkjunum í lok síðasta mánaðar. Hún hefur nú birt myndir og sagt frá áverkunum sem hún hlaut en hún fékk til að mynda gat á kviðinn.

Þessi mikla skíðadrottning féll illa þegar hún freistaði þess að landa sínum hundraðasta heimsbikarmótssigri í Killington.

Hún var í forystu eftir fyrri ferð og var með marklínuna í sjónmáli í seinni ferðinni þegar hún missti stjórnina, endastakkst og endaði úti í öryggisgrindverki.

Þar lá hún kyrr í nokkurn tíma á meðan hugað var að henni, áður en hún var flutt í burtu á sjúkrahús og veifaði þá til áhorfenda, en í ljós kom að hún hafði meðal annars fengið gat á kviðinn eins og sjá má í myndbandinu hér að neðan.

Klippa: Gat á kvið Shiffrin

Dagurinn sem átti að marka mikil tímamót fyrir þessa sigursælustu skíðakonu í sögu heimsbikarmótaraðarinnar, með því að hún næði hundraðasta titlinum, breyttist því á örskotsstundu.

Shiffrin hefur nú ásamt liðsfélögum sínum farið gaumgæfilega yfir það hvað olli því sérstaklega að hún fékk gat á kviðinn þegar slysið varð, með það í huga hvort að eitthvað þurfi að gera til að bæta öryggi keppenda.

„Eftir að hafa skoðað myndband ítrekað þá teljum við að þetta hafi verið toppurinn á skíðastafnum mínum… miðað við stærð og lögun sársins og hvar það var. Kannski stakkst hann í mig og svo rúllaði ég yfir hann sem gæti hafa grafið upp þessa litlu holu. Erfitt að segja í raun og veru, en við erum glöð yfir því að þetta séu bara vöðvameiðsli,“ skrifaði Shiffrin í Instagram-færslu sem ætti að birtast hér að neðan.

„Eftir að hafa skoðað slysið betur þá er ég ótrúlega þakklát fyrir að ekki fór verr. Það munaði ansi litlu að þetta færi í líffæri og þá væri staðan allt önnur og verri,“ skrifaði Shiffrin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×