Íslenski boltinn

Verður á­fram í grænu næsta sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Samantha Rose Smith fagnar Íslandsmeistaratitlinum með Breiðabliki í haust.
Samantha Rose Smith fagnar Íslandsmeistaratitlinum með Breiðabliki í haust. @breidablik_fotbolti

Samantha Rose Smith verður áfram með Íslandsmeisturum Breiðabliks í Bestu deild kvenna í fótbolta á næstu leiktíð. Þetta eru risastórar fréttir fyrir komandi fótboltasumar hér á landi.

Breiðablik staðfesti nýjan samning Smith á miðlum sínum í kvöld. Blikarnir gerðu það með því að birta myndasyrpu með Smith frá síðustu leiktíð og spiluðu síðan undir bandaríska þjóðsönginn.

„Vertu hjartanlega velkomin aftur í grænt - Samantha Rose Smith,“ sagði við færsluna.

Það er líka full ástæða fyrir Blika að fagna þessum nýja samningi við þennan frábæra leikmann.

Smith spilaði reyndar bara síðustu sjö leiki liðsins á tímabilinu en gerði öðrum fremur útslagið við að landa aftur Íslandsmeistaratitlinum í Smárann. Blikar skoruðu 2,4 mörk í leik fyrir komu hennar en 3,7 mörk í leik eftir að hún kom.

Í þessum sjö leikjum var Smith sjálf með níu mörk og sjö stoðsendingar. Hún átti einnig skot sem var fylgt var eftir og kom því að sautján mörkum í leikjunum sjö eða 2,4 mörkum að meðaltali í leik.

Þetta var reyndar sögulegt sumar hjá Smith sem var sú fyrsta til að vinna tvær efstu deildirnar á sama sumri. Hún hafði áður hjálpað FHL, sameiginlegu liði Fjarðabyggðar, Hattar og Leiknis, að vinna Lengjudeildina.

Smith var með 15 mörk í 14 leikjum í Lengjudeildinni og varð næstmarkahæst í deildinni.

Hún lék því alls 21 leik í deildarkeppnunum tveimur sumarið 2024 og skoraði í þeim 24 mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×