Erlent

Banda­ríkin gerðu 75 loft­á­rásir gegn ISIS í Sýr­landi

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, fagnar því að Assad hafi hrökklast frá völdum.
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, fagnar því að Assad hafi hrökklast frá völdum. EPA/RON SACHS

Bandaríkjaher gerði meira en 75 loftárásir á skotmörk Íslamska ríkisins í Sýrlandi í dag. Markmið árásanna hafi verið að þurrka út herbúðir ISIS í miðhluta Sýrlands.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá yfirstjórn Bandaríska hersins á svæðinu en þar kemur fram að almennir borgarar hafi ekki fallið í árásunum.  

Eins og greint hefur verið frá steyptu uppreisnarmenn í Sýrlandi Assad-stjórninni af stóli í morgun. Sýrlendingar víða um heim hafa fagnað falli stjórnarinnar en Assad Sýrlandsforseti hefur hlotið hæli í Rússlandi. 

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, sagði í ávarpi sínu fyrr í kvöld að Bashar al-Assad, fyrrverandi forseti Sýrlands sem var steypt af stóli í nótt, ætti að sæta ábyrgð eftir ár sín í valdastól í ríkinu. Fréttastofa BBC greinir frá. 

Biden varaði Íslamska ríkið við því að reyna grípa völd í landinu nú þegar að mikið umrót væri í pólitísku landslagi í Sýrlandi. Íslamska ríkið ætti ekki að misnota aðstæður og nýta valdalegt tómarúm til að byggja sig upp að nýju.

Biden fangaði því að Assad væri ekki lengur við völd í Sýrlandi og sagði sýrlensku þjóðina hafa einstakt tækifæri til að mynda betri framtíð fyrir ríkið. Bandaríkjastjórn ætli að funda með uppreisnarmönnum um næstu skref. Sameinuðu þjóðirnar muni koma að því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×