Innlent

Bárðarbunga skalf í næst­stærsta skjálfta ársins

Eiður Þór Árnason skrifar
Nokkuð hefur verið um stóra skjálfta í Bárðarbungu þetta árið.
Nokkuð hefur verið um stóra skjálfta í Bárðarbungu þetta árið. Vísir/RAX

Jarðskjálfti af stærðinni 5,1 varð í sunnanverðri öskju Bárðarbungu klukkan 01:49 í nótt. Þetta er annar stærsti skjálftinn sem mælst hefur á landinu á þessu ári en í apríl varð skjálfti upp á 5,4 í norðanverðri Bárðarbunguöskjunni.

Eldfjalla- og náttúruvárhópur Suðurlands greinir frá þessu en kvikusöfnun er talin vera í gangi undir eldstöðinni og landris samhliða því. Aukinn hraði mældist á landrisinu upp úr miðju ári 2023.

Dregið úr virkni á Reykjanesi

Að sögn Veðurstofunnar eru skjálftar af þessari stærð ekki óalgengir í Bárðarbungu. Síðast urðu þar skjálftar um 5 að stærð þann 6. október og 3. september en sá stærsti var áðurnefndur skjálfti þann 21. apríl. Skjálftans varð ekki vart í byggð að þessu sinni, að sögn Veðurstofunnar.

Á sama tíma heldur eldgosið sem hófst þann 20. nóvember á Sundhnúksgígaröðinni áfram. Dregið hefur hægt úr virkni þess og samhliða því hefur dregið úr gosóróa undanfarna daga. Eini virki hraunjaðarinn er nú austan við gíginn nærri Fagradalsfjalli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×