Körfubolti

Tók starfi í NBA eftir hvatningu frá ís­lenskum vin­konum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Íslenskar vinkonur Jennys Boucek hjálpuðu henni að samtvinna móðurhlutverkið með þjálfun í NBA.
Íslenskar vinkonur Jennys Boucek hjálpuðu henni að samtvinna móðurhlutverkið með þjálfun í NBA. stöð 2 sport

Kvennakarfan verður í brennidepli í þriðja þætti Kanans sem verður sýndur í kvöld. Þar verður meðal annars rætt við fyrrverandi leikmann Keflavíkur sem starfar við þjálfun í NBA.

Í þætti kvöldsins verður til dæmis rætt við Penni Peppas, fyrstu bandarísku körfuboltakonuna sem spilaði á Íslandi.

Þá verður einnig rætt við Jenny Boucek sem lék með Keflavík tímabilið 1997-98. Boucek myndi sterk tengsl við samfélagið í Keflavík og hefur haldið sambandi við marga hér á landi. 

Eftir að ferlinum lauk hellti Boucek sér út í þjálfun og hefur náð langt á því sviði. Fyrir sex árum var hún ráðin aðstoðarþjálfari Indiana Pacers í NBA-deildinni, á sama tíma og hún varð ólétt. Íslenskar vinkonur Bouceks hvöttu hana til að taka við starfinu hjá Indiana og hjálpuðu henni að sinna því samhliða því að ala upp dóttur sína. 

„Ég varð ólétt einmitt þegar ég var ráðin inn í NBA. Á þeim tíma var ein kona í þjálfarateymum liðanna í NBA sem ferðuðust í leiki; Becky Hammon. Það var engin önnur kona og ég var að fara að verða einstæð móðir. Þannig að hvernig í fjandanum á ég að þjálfa í NBA, í karlaheimi sem einstæð móðir?“ sagði Boucek í Kananum.

Klippa: Kaninn - fyrrverandi leikmaður Keflavíkur þjálfar í NBA

„Ég talaði við liðsfélaga mína á Íslandi og vegna ykkar túlkunar á kynhlutverkunum sögðu þær: Af hverju geturðu ekki gert bæði? Við eigum dætur sem vilja koma til þín og af hverju sendum við þær ekki yfir til að hjálpa þér af stað. Einn fyrrverandi samherji minn sendi dóttur sína og síðan komu næstu tvær dætur. Allar þessar ungu konur hafa hjálpað mér að ala hana upp. Ég myndi ekki vilja hafa neinn hóp til að hafa áhrif á dóttur mína en ungar íslenskar konur.“

Innslagið úr þriðja þætti Kanans má sjá í spilaranum hér fyrir ofan. Þriðji þátturinn verður sýndur klukkan 19:00 á Stöð 2 og klukkan 20:00 á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×