Sport

Vitor vann úrvalsdeildina í pílukasti

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Vitor Charrua vann úrvalsdeildina í pílukasti í annað sinn. Hann varð einnig Íslandsmeistari árið 2023.
Vitor Charrua vann úrvalsdeildina í pílukasti í annað sinn. Hann varð einnig Íslandsmeistari árið 2023. dart.is

Vitor Charrua er úrvalsdeildarmeistari í pílukasti eftir sigur á úrslitakvöldinu á Bullseye. Hann var sáttur með sigur í oddaleik gegn andstæðingi sem hefur oft unnið hann áður. 

Alexander Veigar Þorvaldsson sló Dilyan Kolev út í fyrri undanúrslitum. Alexander er ríkjandi Reykjavíkurleikameistari og hafði fjórum sinnum áður komist í úrslit, en aldrei unnið.

Hinum megin í undanúrslitum vann Vitor Charrua gegn Arngrími Antoni Ólafssyni.

Vitor og Alexander mættust því í úrslitum. Þeir skiptust í sífellu á sigrum og einvígið fór alla leið í oddaleik. Vitor kastaði betur þar og kláraði oddaleikinn með útskoti á tvöföldum átta.

„Ég var búinn að fá mörg tækifæri til að brjóta hann en ég gat bara ekki hitt útskotum. Þannig að ég var orðinn létt pirraður fyrir oddaleikinn en þá bara hitti ég og hitti. Það er gott að byrja oddaleikinn á tveimur 140 köstum og setur pressu á andstæðinginn,“ sagði Vitor í viðtali við Andra Má Eggertsson á Stöð 2 Sport.

Vitor vann því úrvalsdeildina í annað skipti á þremur árum og fékk að klæðast aftur gulljakkanum glæsilega. Hann var sjáanlega og skiljanlega mjög sáttur, sérstaklega þar sem hann telur sig ekki sterkari pílukastara en Alexander.

„Hann vinnur mig of oft sko,“ sagði Vitor hlæjandi. „En ég fer með þennan [titil] heim, ég er sigurvegari kvöldsins og ætla að njóta þess.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×