Fótbolti

Lokkur úr hári Maradona til sölu og metinn á margar milljónir

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Maradona þótti hárprúður leikmaður. 
Maradona þótti hárprúður leikmaður.  David Cannon/Getty Images

Yfir tvö hundruð sjaldgæfir munir úr heimi íþróttanna verða á uppboði í París næstu helgi.

Aguttes stendur fyrir uppboðinu, sem fer fram þann 15. desember næstkomandi. 

Meðal annars verður til sölu treyjan sem Ronaldo klæddist í úrslitaleik Brasilíu og Frakklands á HM 1998, heimsmeistarabeltið sem Evander Holyfield vann af Mike Tyson árið 1996, spaði Rogers Federer í úrslitaleik Wimbledon árið 2005.

Treyjan sem sést hér á mynd er til sölu, skórnir og silfurmedalían ekki.Oliver Berg/picture alliance via Getty Images

Einnig verður á uppboði lokkur úr hári Diegos Maradona heitins, sem metinn er á verðbili fimm til átta milljóna króna.

Lokkurinn var klipptur af höfði hans í Dubai árið 2018, tveimur árum áður en Maradona lést. Samkvæmt seljanda er lokkurinn um þrír til fjórir sentimetrar.

Lokkurinn var klipptur af Maradona sama ár og hann fór mikinn í stúkunni á heimsmeistaramótinu í Rússlandi.Alex Livesey/Getty Images

Hárlokkar eru ekki mjög algengir safngripir en þó ekki óþekktir. Til dæmis má nefna að lokkur úr hári Bítilsins Johns Lennon var seldur á sambærilega upphæð, fjóra og hálfa milljón, fyrir átta árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×