Sport

Undrabarnið bætti 56 ára gamalt met

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gout Gout hljóp tvö hundruð metrana á 20,04 sekúndum. Enginn Ástrali hefur hlaupið þá jafn hratt.
Gout Gout hljóp tvö hundruð metrana á 20,04 sekúndum. Enginn Ástrali hefur hlaupið þá jafn hratt. getty/Cameron Spencer

Hinn sextán ára Gout Gout heldur áfram að vekja athygli fyrir ótrúleg tilþrif á hlaupabrautinni. Nú hefur hann slegið met sem hafði staðið síðan 1968.

Á ástralska skólameistaramótinu hljóp Gout tvö hundruð metrana á 20,04 sekúndum. Hann bætti þar með ástralska metið í greininni sem Peter Norman setti á Ólympíuleikunum í Mexíkó fyrir 56 árum. Gout bætti met Normans um 0,02 sekúndur.

Ekki nóg með að Gout hafi sett landsmet heldur á hann núna besta tíma nokkurs sextán ára spretthlaupara. Tíminn hans er jafnframt sá næstbesti hjá keppendum átján ára og yngri.

„Þetta er frekar brjálað. Í augnablikinu næ ég ekki alveg utan um þetta en mun eflaust hugsa um þetta þegar ég leggst á koddann,“ sagði Gout við Reuters eftir hlaupið sögulega.

„Þetta eru fullorðnir einstaklingar en ég er bara krakki og vann þá. Ég hef reynt að bæta þetta met en ég hélt að það myndi ekki nást í ár. Ég hélt að það myndi kannski koma á næsta ári eða þarnæsta ári.“

Gout hljóp einnig á 10,04 sekúndum í hundrað metra hlaupi þrátt fyrir sterkan vind. Það er fjórði besti tími sem Ástrali hefur náð í greininni.

Næstu verkefni fyrir Gout er að komast undir tíu sekúndurnar í hundrað metra hlaupi og tuttugu sekúndurnar í tvö hundruð metra hlaupi.

„Ég hef alltaf staðið við það sem ég hef sagt. Ef ég hef sagt eitthvað er það í huga mér og ég reyni allt til að ná því,“ sagði Gout.

Hann er fæddur 2007 og verður ekki sautján ára fyrr en 29. desember. Foreldrar Gouts eru frá Suður-Súdan en fluttu til Ástralíu tveimur árum áður en hann fæddist.

Gout hefur verið líkt við sjálfan Usain Bolt, heimsmethafa í hundrað og tvö hundruð metra hlaupi. Frammistaða hans á hlaupabrautinni hefur vakið mikla athygli og meðal annars skilað honum samningi við Adidas.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×