Innlent

Mjög lítið hlaup eða jarðhitaleki í Skálm

Lovísa Arnardóttir skrifar
Vatnshæð er ekki þannig að hún hafi áhrif á umhverfi árinnar.
Vatnshæð er ekki þannig að hún hafi áhrif á umhverfi árinnar. Vísir/Jóhann K.

Aukin rafleiðni mælist nú í Skálm og eru líkur á gasmengun við upptök og árfarvegi við Mýrdalsjökul. Annað hvort er um að ræða mjög lítið hlaup eða jarðhitaleka samkvæmt Jóhönnu Malen Skúladóttur náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofunni.

Fólki er ráðlagt að forðast upptök áa og árfarvegi við Skálm eins og stendur.

„Það var stórt hlaup í júlí en síðan þá hafa verið þrír minniháttar jarðhitalekar. Það er eins og það sé greiðari leið fyrir jarðhitavatn þarna niður eftir stóra hlaupið,“ segir Jóhanna í samtali við fréttastofu.

Það sé því líklegt að það sé annar slíkur atburður að eiga sér stað. Það væri hægt að tala um þetta sem mjög lítið hlaup eða annan jarðhitaleka.

„Vatnshæðin er ekki í þannig magni að hún hafi áhrif en vegna þess að það berast alls konar efni með vatninu og gas mögulega líka þá settum við gulan borða á vefinn svo fólk forðist upptök áa og árfarvegi við Mýrdalsjökuk, aðallega austan megin við þar sem Skálm er.“

Í tilkynningu á vef Veðurstofunnar segir að rafleiðni og vatnshæð hafi hækkað í Leirá-Syðri og Skálm og að rafleiðni hafi farið hækkandi í Leirá-Syðri og í Skálm síðustu daga. Því biðji þau fólk að sýna aðgát við upptök árinnar og nærri árfarveginum þar sem gasmengun gæti verið á svæðinu.

Þá segir að engar tilkynningar hafi borist um brennisteinslykt og að líklega sé um hægan leka jarðhitavatns undan jöklinum. Náttúruvárvakt VÍ mun halda áfram að vakta svæðið.


Tengdar fréttir

Hlaupið í rénun

Jökulhlaup sem staðið hefur yfir í Skálm undanfarna sólarhringa er í rénun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×