Erlent

Gífur­lega kröftugur jarð­skjálfti undan ströndum Kali­forníu

Samúel Karl Ólason skrifar
Skjálftinn mældist 7,0 að styrk.
Skjálftinn mældist 7,0 að styrk. Jarðvísindastofnun Bandaríkjanna.

Gefin var út flóðbylgjuviðvörun í Kaliforníu eftir að gífurlega kröftugur jarðskjálfti mældist undan ströndum ríkisins. Jarðskjálftinn var af stærðinni 7,0 samkvæmt bandarískum jarðfræðingum og var uppruni hans undan ströndum norðanverðs ríkisins, nærri landamærum Oregon.

Jarðskjálftinn fannst víða um Kaliforníu og meðal annars alla leið til San Francisco, samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar. Þá hafa smærri eftirskjálftar greinst einnig.

Íbúar í norðanverðri Kaliforníu fengu skilaboð í síma sína í kjölfar skjálftans þar sem þeir voru varaðir við mögulegum flóðbylgjum og beðnir um að halda sig frá ströndinni.

Alls búa um 5,3 milljónir manna á svæðinu sem viðvörunin nær til. Þar var sett á gul viðvörun sem er til marks um spár sérfræðina á takmörkuðum skaða, ef flóðbylgjan hefði yfir höfuð raungerst. Viðvörunin var þó felld úr gildi skömmu síðar.

Hvort jarðskjálftinn olli miklum skemmdum er enn ekki ljóst.

Blaðamaður LA Times ræddi við eiganda gistiheimilis í Ferndale, sem er bær nærri uppruna jarðskjálftans. Olivia Cobian, eigandinn, sagði gistiheimilið líta út eins og stríðsvöll eftir jarðskjálftann.

Eldstæði hafi hreyfst til í húsinu, sem reist var árið 1895, og það sama eigi við gömul og þung baðkör.

„Þetta er galið,“ sagði Cobian.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×