Sport

Gauti komst á pall á Ítalíu

Sindri Sverrisson skrifar
Gauti Guðmundsson náði góðum árangri á Ítalíu í gær.
Gauti Guðmundsson náði góðum árangri á Ítalíu í gær. Mynd/Guðmundur Jakobsson

Skíðamaðurinn Gauti Guðmundsson náði sínum besta árangri á ferlinum þegar hann endaði í 2. sæti á svigmóti á Ítalíu í gær.

Gauti var í 11. sæti eftir fyrri ferðina en átti frábæra seinni ferð og náði þá besta tímanum, og endaði samanlagt í 2. sæti mótsins eins og fyrr segir.

Hann fékk 28.51 FIS punkta fyrir mótið og hefur aldrei gert betur.

Gauti Guðmundsson varð í 2. sæti á svigmóti á Ítalíu.SKÍ

Fleiri meðlimir íslenska karlalandsliðsins í alpagreinum voru á mótinu. Jón Erik Sigurðsson endaði í 7. sæti og Sturla Snær Snorrason í 8. sæti.

Rétt eins og Gauti þá áttu þeir mun betri seinni ferð, og voru þrjár bestu frammistöðurnar í seinni ferðinni frá Íslendingunum þremur.

Jón Erik fékk 33.85 FIS punkta og Sturla Snær 35.70 punkta, en FIS-punktarnir virka þannig að eftirsóknarvert er að fá sem lægsta punkta.

Jón Erik náði líkt og Gauti sínum besta árangri á ferlinum, þegar horft er til punktanna. Sturla, sem nýverið sneri aftur til keppni eftir hlé, er enn töluvert frá sínum bestu punktum á ferlinum en bætti sig þó heilmikið á heimslista.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×