Körfubolti

Spilar báða leikina við Kefla­vík með bann hangandi yfir sér

Sindri Sverrisson skrifar
Adomas Drungilas var foxillur út í dómara í leiknum við Álftanes á föstudagskvöld, og var vísað upp úr Síkinu.
Adomas Drungilas var foxillur út í dómara í leiknum við Álftanes á föstudagskvöld, og var vísað upp úr Síkinu. Stöð 2 Sport

Adomas Drungilas, Litháinn öflugi í toppliði Tindastóls í Bónus-deild karla í körfubolta, er að öllum líkindum á leið í leikbann. Það verður þó ekki strax og nær hann að spila tvo mikilvæga leiki við Keflavík áður en að því kemur.

Drungilas var rekinn umsvifalaust úr húsi á Sauðárkróki síðasta föstudag, í sigrinum gegn Álftanesi, eftir að hann hellti sér yfir einn af dómurum leiksins, eins og sjá má hér að neðan. 

Fjallað var um hegðun hans í síðasta þætti Körfuboltakvölds þar sem Pavel Ermolinskij, fyrrverandi þjálfari hans, sagði meðal annars:

„Hann bara missti sig. Ekkert í fyrsta skipti og mögulega ekki í það síðasta. Þetta er einhver hlið á honum sem er til, og við sem þekkjum hann og höfum starfað með honum við tökum þessu bara, því það er önnur hlið á honum sem skiptir mikið meira máli en þetta.“

Klippa: Körfuboltakvöld - Drungilas rekinn úr húsi

Aga- og úrskurðanefnd KKÍ úrskurðaði ekki í málinu á fundi sínum á þriðjudag og því verður bið á því að Drungilas fari í bann, þó að fastlega megi búast við því að hann fari í bann og að spurningin sé aðeins hve langt það verði.

Töf á úrskurði kemur sér ekki vel fyrir bikarmeistara Keflavíkur sem eru mótherjar Tindastóls í næstu tveimur leikjum. Liðin mætast á morgun í stórleik í Bónus-deildinni og svo aftur í VÍS-bikarnum á mánudagskvöld, og mun Drungilas geta spilað báða þessa leiki áður en niðurstaða fæst í hans máli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×