Sport

Vilja halda HM á hlaupa­brettum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tenniskappinn Novak Djokovic sést hér á fullri ferð á hlaupabretti.
Tenniskappinn Novak Djokovic sést hér á fullri ferð á hlaupabretti. Getty/Clive Brunskill

Hvernig hljómar það að verða heimsmeistari á hlaupabretti? Það gæti verið möguleiki í næstu framtíð.

Hingað til hafa íþróttamenn og almenningur notað hlaupabrettin til að koma sér í betra form fyrir keppni en nú geta þau farið að sérhæfa sig í þessu sem íþróttagrein.

Alþjóða frjálsíþróttasambandið, World Athletics, hefur nefnilega uppi alvöru hugmyndir um að tryggja sér sína sneið af síauknum vinsældum sýndarveruleikalíkamsræktar í heiminum.

Sambandið hefur horft til keppna eins og heimsmeistaramótsins í innanhússróði og heimsmeistaramótsins á rafhjólum. Nú vill sambandið skipuleggja HM á hlaupabrettum.

„Þú ert íþróttamaður hvort sem þú hleypur í þrjátíu mínútur á hlaupabretti eða vinnur Ólympíugull,“ sagði Jon Ridgeon, framkvæmdastjóri Alþjóða frjálsíþróttasambandsins.

Hyrox líkamsræktarkeppnin hefur stóraukið vinsældir sínar á síðustu misserum, eða um þúsund prósent, og þá er metáhugi á maraþonhlaupum eins og því sem fór fram í London í ár.

Alþjóða frjálsíþróttasambandið hefur þegar hafið viðræður við tæknifyrirtæki sem yrði í samstarfi með því til að halda HM á hlaupabrettum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×