Hinn 26 ára gamli Kristófer Konráðsson kemur til Fram frá Grindavík, líkt og miðvörðurinn Sigurjón Rúnarsson hafði áður gert. Kristófer, sem er uppalinn hjá Stjörnunni, á að baki 135 meistaraflokksleiki og þar af 39 leiki í efstu deild. Þá lék hann 22 leiki fyrir yngri landslið Íslands, þar af þrjá leiki fyrir U21-landsliðið.
Arnar Daníel Aðalsteinsson kemur svo til Fram frá Gróttu. Þessi tvítugi leikmaður á að baki sjö leiki fyrir U19-landslið Íslands og hefur spilað 52 leiki fyrir Gróttu í Lengjudeildinni, en er uppalinn hjá Breiðabliki.
Áður hafði Fram svo tilkynnt um komu Ólivers Elís Hlynssonar, sem einnig er tvítugur og kom frá ÍR.
Framarar hafa hins vegar kvatt leikmenn á borð við Jannik Pohl, Tiago Fernandes og Brynjar Gauta Guðjónsson.
Fram endaði í 9. sæti Bestu deildarinnar á síðustu leiktíð, fimm stigum frá fallsæti eftir að hafa tapað fjórum síðustu leikjum sínum.