Formúla 1

Verstappen heims­meistari fjórða árið í röð

Sindri Sverrisson skrifar
Max Verstappen í Las Vegas í gær, að ítreka hve oft hann hefur orðið heimsmeistari.
Max Verstappen í Las Vegas í gær, að ítreka hve oft hann hefur orðið heimsmeistari. Getty/Mark Thompson

Hollendingurinn Max Verstappen tryggði sér í gær sinn fjórða heimsmeistaratitil í Formúlu 1, þegar kappaksturinn í Las Vegas fór fram.

Þó að enn séu tvær keppnir eftir á tímabilinu hefur Verstappen, sem ekur fyrir Red Bull, þegar tryggt sér titilinn, eftir að hann endaði í 5. sæti í Las Vegas.

George Russell hjá Mercedes vann kappaksturinn en honum tókst að halda aftur af sjöfalda heimsmeistaranum Lewis Hamilton sem endaði í 2. sæti.

Carlos Sainz og Charles Leclerc á Ferrari komu næstir og svo Verstappen en það dugði Hollendingnum. Hans helsti keppinautur um heimsmeistaratitilinn, Lando Norris hjá McLaren, endaði í 6. sæti.

Þar með er Verstappen 63 stigum á undan Norris þegar mest er hægt að fá 60 stig til viðbótar.

Verstappen er núna kominn í hóp með Alain Prost og Sebastian Vettel sem einnig urðu heimsmeistarar fjórum sinnum.

Aðeins Hamilton, Michael Schumacher og Juan Manuel Fangio hafa unnið titilinn oftar.

„Þvílíkt tímabil!“ sagði Verstappen við liðið sitt í gegnum talstöðina eftir að titillinn var í höfn. „Þetta var aðeins erfiðara en á síðasta tímabili en við komum okkur í gegnum það,“ sagði Verstappen og bætti við:

„Þetta er búið að vera langt tímabil og við byrjuðum stórkostlega, næstum auðveldlega, en áttum svo erfiðan kafla en stóðum saman sem lið, héldum áfram að vinna að því að bæta okkur og komumst yfir endalínuna. Ég bjóst aldrei við því að standa uppi sem fjórfaldur heimsmeistari svo ég finn fyrir létti og stolti.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×