Skoðun

Kjósum á næsta kjörtíma­bili

Jón Steindór Valdimarsson skrifar

Hreinn meirihluti kjósenda telur mikilvægt að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla á komandi kjörtímabili um framhald aðildarviðræðna Íslands við Evrópusambandið. Alls segja 55% það mikilvægt , 21% í meðallagi mikilvægt en 24% lítilvægt. Þessi niðurstaða er mjög afgerandi.

Í þessu samhengi er fróðlegt að skoða viðhorf stjórnmálaflokkanna til að halda slíka atkvæðagreiðslu á komandi kjördæmabili.

Evrópuhreyfinginn spurði flokkana tveggja einfaldra spurninga um þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu.

Spurning eitt

Mun flokkurinn beita sér fyrir því að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla á næsta kjörtímabili um framhald aðildarviðræðna Íslands og ESB?



Píratar og Viðreisn svara játandi. Samfylkingin er jákvæð en ekki afdráttarlaus.

Nei

Flokkur fólksins, Framsóknarflokkurinn, Miðflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn og Sósíalistar svara allir nei.

Óljóst

Vinstri græn svara spurningunni með óljósum hætti en verða hér felld í þann flokk að þau muni ekki beita sér fyrir slíkri atkvæðagreiðslu.

Spurning tvö

Mun flokkurinn beita sér gegn því að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla á næsta kjörtímabili um framhald aðildarviðræðna Íslands og ESB?

Nei

Flokkur fólksins, Píratar, Samfylking, Sósíalistar og Viðreisn svara því afdráttarlaust neitandi að þessir flokkar muni beita sér gegn slíkri atkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu.



Framsóknarflokkurinn, Miðflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn svara því afdráttarlaust játandi að þeir muni beita sér gegn slíkri atkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu.

Óljóst

Vinstri græn svara spurningunni með afar óljósum hætti og ekki unnt að átta sig á því hvaða afstöðu þau muni taka.

Eigum við ekki að kjósa þau sem treysta okkur til að kjósa?

Vilji þjóðarirnnar stendur til þess að á næsta kjörtímabili fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald aðildarviðræðna. Um það verður ekki deilt.

Tveir til þrír flokkar segjast munu beita sér fyrir slíkri atkvæðagreiðslu og hljóta því að leggja fram tillögu þess efnis á Alþingi á næstu misserum.

Þrír flokkar segjast munu beita sér gegn slíkri tillögu en fimm flokkar munu ekki gera það og óljóst hvað einn muni gera.

Auðvitað á eftir að koma í ljós hvað þeir flokkar sem á annað borð ná inn á Alþingi gera þegar á reynir en leiðarvísir kjósenda er nokkuð skýr í þessum efnum. Sama gildir um afstöðu flokkanna.

Könnun Maskínu leiðir einnig í ljós að meirihluti stuðningsfólks sex af níu flokkum sem könnunin nær til telja mikilvægt að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram á komandi kjörtímabili. Er ekki rétt að flokkarnir leggi við hlustir?

Við í Evrópuhreyfingunni fögnum því að allt útlit er fyrir að Alþingi standi frammi fyrir því verkefni að ákveða að treysta þjóðinni. Henni verði falið að taka afstöðu til þess hvort áfram skuli haldið með viðræður Íslands og Evrópusambandsins um aðild Íslands að ESB.

(Nánari upplýsingar um könnun Maskínu, spurningar Evrópuhreyfingarinnar og svör flokkanna eru birtar á vefnum www.evropa.is. Þar gefst líka tækifæri til þess að ganga til liðs við okkur í Evrópuhreyfingunni.)

Höfundur er formaður Evrópuhreyfingarinnar.




Skoðun

Sjá meira


×