Körfubolti

LeBron James hættur á sam­félags­miðlum

Sindri Sverrisson skrifar
Það er ekki útilokað að LeBron James njóti lífsins mun betur án samfélagsmiðla.
Það er ekki útilokað að LeBron James njóti lífsins mun betur án samfélagsmiðla. Getty/Wally Skalij

Körfuboltagoðsögnin LeBron James tilkynnti óvænt í gærkvöld að hann væri farinn í hlé frá samfélagsmiðlum, og vísaði í gagnrýni á „neikvæða“ umræðu í bandarískum fjölmiðlum.

James er með um 212 milljónir fylgjenda samanlagt á Instagram og Twitter. Fylgjendur hans munu um ótiltekinn tíma ekki sjá nýjar færslur frá þessum 39 ára gamla leikmanni LA Lakers, sem í haust komst enn á ný í sögubækurnar þegar hann spilaði með syni sínum í NBA-deildinni.

James sagðist svo sem ekki mikið um það af hverju hann hefði nú tekið sér hlé, heldur deildi hann færslu frá Rich Kleiman sem lengi hefur verið umboðsmaður Kevins Durant. Í þeirri færslu er sett út á umfjöllun um íþróttir í bandarískum miðlum:

„Með allt þetta hatur og neikvæðni í heiminum í dag þá skil ég ekki að sumir af íþróttamiðlunum hér í landi telji best að fjalla um íþróttir út frá neikvæðum sjónarhornum. Mér finnst það algjörlega tilgangslaust,“ stóð í færslu Kleiman.

„AMEN!!“ skrifaði James þegar hann deildi færslunni og hann fylgdi því svo eftir með tilkynningu um að hann væri búinn að skrá sig út af samfélagsmiðlum:

„Að þessu sögðu þá bið ég að heilsa ykkur öllum! Farinn út af samfélagsmiðlum í bili. Farið vel með ykkur,“ skrifaði James.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem að James tekur sér hlé frá samfélagsmiðlum. Þessi stigahæsti leikmaður NBA-deildarinnar frá upphafi hefur gert það áður en það er þá vanalega með það að markmiði að einbeita sér að körfuboltanum.

James hafði gefið í skyn óánægju með gagnrýni fjölmiðla eftir sigur Lakers gegn Utah Jass í fyrrakvöld, þar sem nýlið Los Angeles, Dalton Knecht, skoraði 37 stig. James hrósaði Knecht og sagðist hafa verið meðvitaður um hæfileika hans eftir að hafa fylgst með honum spila fyrir Tennessee í menntaskóla.

„Allir á internetinu eru alltaf að kalla mig lygara. Þeir segja að ég ljúgi til um allt. Hvað er ég þá núna? Ég var búinn að segja þetta. Ég fylgdist með honum. Ég fylgdist vel með Tennessee,“ sagði James.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×