Skoðun

Skilnings­leysi xD og xM á hælis­leit­enda­kerfinu

Kári Allansson skrifar

Undirritaður og formaður Lýðræðisflokksins, Arnar Þór Jónsson, rituðu grein sem birtist á Vísi 27. október síðastliðinn. Bar greinin yfirskriftina Róttækar og tafarlausar umbætur. Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér stefnu Lýðræðisflokksins í hælisleitendamálum er bent á að lesa greinina. Þrátt fyrir að höfundar hennar hafi gert sitt besta til að útskýra vandann sem fylgir frjálsri för á EES- og Schengen-svæðunum, virðist það ekki hafa skilað sér til Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins, hvað þá annarra flokka.

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra kynnti á dögunum nýja stefnu stjórn­valda um mál­efni landa­mæra. Þá ritaði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins grein í Morgunblaðið 20. nóvember síðastliðinn þar sem hann útlistaði stefnu sína varðandi hælisleitendakerfið.

Hvorki Guðrún né Sigmundur virðast átta sig á því í fyrsta lagi, að eina leiðin til að stöðva straum hælisleitenda er að leggja hæliskerfið alveg niður, en taka eingöngu á móti kvótaflóttamönnum í samstarfi við Flóttamannastofnun Sameinuðu Þjóðanna. Í öðru lagi virðast þau ekki átta sig á því að eina leiðin til að uppræta starfsemi erlendra glæpasamtaka á Íslandi er að taka upp vegabréfsáritanir til landsins fyrir alla útlendinga. Það hefur einnig þann kost að veita yfirsýn yfir fjölda ferðamanna og auðveldara verður að leggja komugjald á þá. Aðeins með vegabréfsáritunum verður framkvæmanlegt að vísa mönnum frá landinu áður en þeir eru komnir inn í það.

Allt kapp verður að leggja á að glæpamenn eða fólk sem ekki getur séð fyrir sér sjálft komist ekki inn í landið. Annars verður margfalt erfiðara og tímafrekara að koma þeim úr landinu m.a. vegna tengingar laga um útlendinga við flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna, Dyflinnar-reglugerðina og Schengen-samninginn. Reglur sem hvorki Guðrún né Sigmundur ætla að víkja til hliðar.

Tillögur Lýðræðisflokksins fela raunverulega í sér fulla stjórn á landamærunum, en tillögur Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins duga skammt.

Eyja í Norður-Atlantshafi á að geta varið landamæri sín gagnvart hinu norræna ástandi sem lögreglumenn hafa nýlega varað við. Ef menn vilja breytingar, þá verða þeir að kjósa breytingar.

Gerum Ísland gott aftur!

Höfundur er í fyrsta sæti hjá Lýðræðisflokknum í Reykjavík suður og er fyrrverandi lögfræðingur hjá Útlendingastofnun.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×