Gummersbach vann nítján marka sigur á FH þegar liðin mættust á dögunum í Kaplakrika en FH-ingar gekk aðeins betur á móti þeim í kvöld.
Þetta var fimmti leikur liðanna í riðlakeppninni en Gummersbach er í efsta sæti riðilsins með átta stig en FH-ingar sitja í því neðsta með tvö stig.
FH-ingar byrjuðu leikinn vel og voru 8-5 yfir um miðjan fyrri hálfleik. Gummersbach var hins vegar komið sex mörkum yfir fyrir hálfleik, 16-10.
Munurinn varð þó ekki mikið stærri í seinni hálfleiknum þótt að sigur Gummersbach hafi aldrei verið í mikilli hættu.
Guðjón Valur Sigurðsson stýrir liði Gummersbach en aðeins einn íslenskur leikmaður, Teitur Örn Einarsson, var með í kvöld.
Teitur er að koma til baka eftir meiðsli en hann klikkaði á eina skoti sínu í kvöld.
Jóhannes Berg Andrason var markahæstur FH-inga í kvöld með sex mörk en hann gaf einnig þrjár stoðsendingar og átti flottan leik. Ásbjörn Friðriksson skoraði fjögur mörk. Leonhard Þorgeir Harðarson, Jón Bjarni Ólafsson og Garðar Ingi Sindrason skoruðu allir þrjú mörk.
FH-ingar klikkuðu á þremur af fjórum vítum sínum í leiknum, Símon Michael Guðjónsson klikkaði á tveimur en Ásbjörn einu.