Melsungen hefur verið að spila vel á tímabilinu og var eitt í efsta sæti deildarinnar fyrir leikinn gegn Magdeburg. Melsungen hafði aðeins tapað tveimur stigum í níu leikjum á tímabilinu en Magdeburg hafði sömuleiðis aðeins tapað einum leik en hafði leikið einum leik færra.
Melsungen náði snemma frumkvæðinu í leiknum í dag. Liði leiddi 9-6 um miðjan fyrri hálfleikinn og að honum loknum var staðan 15-12 heimaliðinu í vil.
Melsungen náði síðan áhlaupi í upphafi síðari hálfleiks og komst í 20-14. Elvar Örn var að leika vel á þessum kafla, skoraði og lagði upp og setti heldur betur sín lóð á vogarskálarnar hjá Melsungen.
Melsungen 31- 23 Magdeburg
— Rasmus Boysen (@RasmusBoysen92) November 16, 2024
Kristopans and Simic unstoppable tonight - and an amazing Melsungen defense.
Melsungen have now defeated Kiel (a), Berlin (h) and Magdeburg (h) - and are still on top of the Bundesliga.#handball
Forystan varð mest átta mörk og lið Magdeburg í tómu brasi en Ómar Ingi Magnússon var sá eini sem virtist vera að spila af eðlilegri getu hjá meisturunum.
Að lokum var það lið Melsungen sem vann nokkuð öruggan 31-23 sigur og heldur því toppsætinu. Magdeburg er fjórum stigum á eftir í 3. sæti en á leik til góða.
Elvar Örn og Arnar Freyr skoruðu báðir þrjú mörk fyrir Melsungen í kvöld en Ómar Ingi var langmarkahæstur hjá Magdeburg með níu mörk. Gísli Þorgeir Kristjánsson komst ekki á blað.
Óðinn markahæstur í bikarsigri
Í Sviss mættust Kadetten Schaffhausen og Basel í bikarkeppninni en Óðinn Þór Ríkharðsson leikur með fyrrnefnda liðinu sem hefur verið það besta í svissneska boltanum síðustu misserin.
Skemmst er frá því að segja að Óðinn Þór fór á kostum í leiknum. Hann var markahæstur í liði Kadetten Schaffhausen með níu mörk og það án þess að klikka á skoti. Óðinn Þór og félagar unnu 38-33 sigur og fara því áfram í næstu umferð bikarkeppninnar.