Handbolti

Öruggt hjá liði Díönu Daggar og Andreu í Evrópuslag Ís­lendingaliðanna

Smári Jökull Jónsson skrifar
Díana Dögg verður í eldlínunni með íslenska landsliðinu á EM í desember.
Díana Dögg verður í eldlínunni með íslenska landsliðinu á EM í desember. Vísir/EPA

Lið Blomberg-Lippe vann öruggan sigur á Metzingen í Íslendingaslag í EHF-bikarnum í handknattleik í dag. Með sigrinum tryggði Blomberg-Lippe sér sæti í næstu umferð keppninnar.

Díana Dögg Magnúsdóttir og Andrea Jacobsen vour í hóp Blomberg-Lippe í leiknum gegn Metzingen í dag og Sandra Erlingsdóttir í hópnum hjá Metzingen. Díana Dögg og Andrea eru báðar í landsliðshópi Arnars Péturssonar sem leikur á Evrópumótinu í desember en Sandra fer ekki með enda nýkomin af stað eftir að hafa eignast barn í sumar.

Blomberg-Lippe var með níu marka forystu eftir 30-21 sigur í fyrri leik liðanna á heimavelli og því í raun formsatriði að klára síðari leikinn.

Þar voru það gestirnir frá Blomberg-Lippe sem voru mun sterkari aðilinn líkt og í fyrri leiknum. Staðan í hálfleik í dag var 20-7, ótrúleg þrettán marka forysta gestanna en bæði liðin spila í þýsku úrvalsdeildinni.

Í síðari hálfleik náðu heimakonur í Metzingen að minnka muninn niður í sex mörk en úrslitin í einvíginu voru löngu ráðin. Blomberg-Lippe vann að lokum 35-27 sigur og fer örugglega áfram í næstu umferð.

Andrea skoraði fjögur mörk og Díana Dögg þrjú fyrir Blomberg-Lippe í dag en Sandra komst ekki á blað í liði Metzingen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×