Valur er án Finns Freys Stefánssonar, þjálfara karlaliðsins, sem hefur verið í veikindaleyfi og Jamil þjálfað liðið í hans stað í fyrstu sex leikjum liðsins í Bónus deild karla. Hann er samhliða því þjálfari kvennaliðs félagsins sem hann hefur stýrt í vetur.
Jamil var fjarverandi þegar Valur mætti KR í gær og sagður veikur. Landsliðsmaðurinn Kristófer Acox, sem er leikmaður Vals, stýrði liðinu til sigurs á uppeldisfélagi hans KR ásamt Finni Atla Magnússyni.
Heimildir Vísis herma að ástæða fjarveru Jamils séu ekki veikindi. Öllu heldur er hún sú að atvinnuleyfi kanadíska þjálfarans er útrunnið. Misfarist hafi að endurnýja leyfið í sumar.
Jamil sér því fram á að þurfa að fara úr landi áður en hægt sé að endurnýja atvinnuleyfið.
Gera má ráð fyrir að hann verði ekki á hliðarlínunni þegar kvennalið Vals mætir Aþenu í sjöttu umferð Bónus deildar kvenna á sunnudagskvöld.