Elliði missti af nýlegum sigrum Íslands gegn Bosníu og Georgíu í undankeppni EM, vegna meiðslanna.
„Ég er með teygt aftara krossband og beinmar. En það ætti samt allt saman að gróa og lagast á næstu vikum,“ segir Elliði í samtali við RÚV í dag.
Íslenska landsliðið hefur keppni á HM þann 16. janúar þegar liðið mætir Grænhöfðaeyjum í Zagreb í Króatíu. Liðið er einnig í riðli með Kúbu og Slóveníu, og fer svo vonandi í milliriðil með þremur liðum úr H-riðli (Egyptaland, Króatía, Argentína, Barein).
Nú þegar tveir mánuðir eru í fyrsta leik á HM kveðst Elliði, sem reyndar á 26 ára afmæli einmitt í dag, ekki óttast að meiðslin sem hann glímir nú við setji strik í reikninginn.
„Það er í raun óvitað hvað ég þarf að hvíla lengi. En það er frekar talið í vikum en mánuðum og samkvæmt læknum bæði heima og hérna úti er stórmótið ekki í hættu,“ segir Elliði við RÚV.
Hann leikur undir stjórn Guðjóns Vals Sigurðssonar með Gummersbach í Þýskalandi og það verður að koma í ljós hvenær næsti leikur hans þar verður. Elliði verður þó að minnsta kosti ekki með þegar Gummersbach tekur á móti Íslandsmeisturum FH í Evrópudeildinni næsta þriðjudagskvöld.