Körfubolti

Kefl­víkingur með í „upp­gjöri ára­tugarins“

Sindri Sverrisson skrifar
Marek Dolezaj er landsliðsmaður Slóvakíu og nú bíða leikir við sjálfa Evrópumeistara Spánar.
Marek Dolezaj er landsliðsmaður Slóvakíu og nú bíða leikir við sjálfa Evrópumeistara Spánar. vísir/Anton

Marek Dolezaj, leikmaður Keflavíkur í Bónus-deildinni í körfubolta, hefur verið valinn í landslið Slóvakíu fyrir komandi leiki við Spánverja í undankeppni EM.

Á sama tíma og íslenska landsliðið tekst á við Ítalíu í tveimur leikjum, 22. og 25. nóvember, þá munu Dolezaj og félagar mæta sjálfum Evrópumeisturum Spánar.

Körfuknattleikssamband Slóvakíu dregur ekkert úr þessum viðburði og talar um „uppgjör áratugarins“ á heimasíðu sinni, í frétt um slóvakíska hópinn.

Þar er bent á að ekki sé aðeins stjörnum prýtt lið Spánar næsti mótherji heldur séu Slóvakar einnig í harðri baráttu um að komast í lokakeppni EM. Þangað fara þrjú efstu liðin í hverjum riðli.

Slóvakar eru reyndar í riðli með einum af gestgjöfunum, Lettum, sem eru öruggir um að komast á EM og því eru Slóvakía, Spánn og Belgía að spila um tvö laus sæti. Belgar og Lettar hafa unnið báða leiki sína til þess en Slóvakar og Spánverjar tapað báðum sínum.

Marek Dolezaj er á sinni annarri leiktíð með Keflavík en hann varð bikarmeistari með liðinu á síðustu leiktíð. Í vetur hefur hann að meðaltali skorað 9,7 stig, tekið 6,3 fráköst og gefið 1,3 stoðsendingar í leik í Bónus-deildinni. Hann var með 11,6 stig að meðaltali í leik í deildinni síðasta vetur, tók þá 6,9 fráköst og gaf 2 stoðsendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×