Hinn 58 ára Tyson snýr aftur í hringinn á morgun þegar hann mætir samfélagsmiðlastjörnunni Jake Paul sem er 31 ári yngri en hann. Bardaginn gæti markað upphaf endurkomu Tysons í hnefaleikana.
„Ég útiloka ekkert eftir að ég rota Jake Paul. Ég tek bara einn bardaga, einn andstæðing í einu. En ef þessi bardagi fer jafn vel og ég býst við útiloka ég ekki fulla endurkomu,“ sagði Tyson.
Hann var því næst spurður hvort hann væri tilbúinn að mæta bestu þungavigtarboxurum heims, eins og Fury, Oleksandr Usyk og Daniel Dubois.
„Eins og ég sagði verður allt tekið til greina,“ sagði Tyson.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem mögulegur bardagi Tysons og Furys kemur til tals. Sá síðarnefndi sagði eitt sinn að Tyson hefði farið fram á fimm hundruð milljónir Bandaríkjadala fyrir að berjast við sig. Tilboðið sem Fury hafi fengið hafi hins vegar verið heldur fátæklegt og því hafi ekkert orðið úr bardaganum.