Umræðan

Kannski, kannski ekki

Björgvin Ingi Ólafsson skrifar

Á dimmum og heldur drungalegum haustdegi árið 1998 stóð ég við inngang höfuðstöðva fyrirtækis við Sundahöfn í Reykjavík. Það var blautt og dimmt. Ég var um tvítugt og starfaði hjá Gæðamiðlun, einu fyrsta íslenska veffyrirtækinu. Við bjuggum til heimasíður fyrir íslensk fyrirtæki — oft fyrstu heimasíðuna þeirra.

Ég hafði varið deginum í að útskýra fyrir framkvæmdastjórninni þetta glænýja fyrirbæri — Internetið. Eftir langan dag hringdi ég í Dadda samstarfsmann minn og sagði: „Ég er búinn.“ Hann svaraði bara: „Ha, ertu búinn að vera með þeim í allan dag.“

Þetta var rótgróið fyrirtæki sem hafði gengið vel — þau vildu skilja hvort þetta „Internet“ væri eitthvað sem skipti máli. Reyndir eldri stjórnendur horfðu á mig allan þennan dag með ákveðinni tortryggni og spurningarnar lágu í loftinu: „Er þetta eitthvað sem við þurfum að taka mark á?“ „Mun þetta ekki bara deyja út?“ „Er þetta ekki eitthvað sem bara krakkarnir nota?“

Kannski, kannski ekki.

Furðuhross á fundi

Þann 17. maí 2022, 24 árum eftir að ég útskýrði Internetið fyrir fyrir miðaldra íslenskum stjórnendum, var ég kominn í allt annan heim. Ég var á leið á fund í Mission-hverfinu í San Francisco sem hluti sendinefndar Guðna Th. Jóhannessonar forseta um íslenska máltækni.

Auk Guðna var Lilja Alfreðsdóttir ráðherra og íslenskur máltækniher með í för. Áfangastaðurinn var höfuðstöðvar OpenAI, tiltölulega lítið þekkts nýsköpunarfyrirtækis. Á skrifstofum sem litu út eins og vinalegt jógasetur tók Sam Altman, forstjóri OpenAI, á móti okkur.

Á miðjum fundi bauð Sam Guðna að teikna mynd með gervigreindartækni fyrirtækisins. Guðni spurði: „Getur græjan teiknað íslenskan hest, sem stendur við foss með regnboga í bakgrunni?“

Við horfðum á tæknina vinna og þar birtist hesturinn, dálítið klunnalegur og grófur birtist á skjánum.

Ekki nákvæmlega hesturinn hans Guðna en álíka klunnalegur.

Sam sýndi okkur svo líka hvernig þeirra kerfi gat svarað á íslensku, án nokkurrar raunverulegrar þjálfunar á tungumálinu. Þótt íslenskan væri klunnaleg þá gerðist þetta hratt og örugglega.

Þetta var samt ekki bara mynd af hesti og klunnaleg íslenska — þetta var vísbending um að stafræn framtíð íslenskunnar væri bjartari en við höfðum þorað að vona.

Við vorum uppnumin. „Vorum við að sjá eitthvað nýtt, byltingarkennt jafnvel?“ „Myndi þetta breyta einhverju fyrir íslenskuna?“

Kannski, kannski ekki.

Af þrjóskum og þrautseigum Villa

Í ferðinni var líka Villi Þorsteinsson, stofnandi Miðeindar.

Strax eftir fundinn með OpenAI sendi hann póst á gestgjafana og hermdi upp á þá loforð um að styðja minni tungumál heimsins, eins og íslensku, og vinna gegn „gervigreindargjá“ þar sem sum lönd hefðu aðgang að möguleikum hinnar nýju tækni en önnur ekki.

En þrátt fyrir póstinn gerðist ekkert.

Í júní sendi Villi svo fleiri pósta og skilaboð, meðal annars á Boris Power, sem var með okkur á fundinum.

En aftur gerðist ekkert.

Ekkert gerðist fyrr en rúmum tveimur vikum seinna. Þá upphófust tölvupóstssamskipti milli Boris, Villa og fleiri. Á fundi tveimur vikum síðar voru settar fram hugmyndir um samstarfsverkefni. Um haustið fékk Miðeind, fyrirtæki Villa, síðan aðgang að fínþjálfun GPT-3 módels OpenAI. Lítið hafði samt breyst í raun.

Tveimur mánuðum síðar, um hálfu ári eftir fyrsta fundinn okkar með OpenAI, barst óvæntur póstur frá Önnu Makanju, einum af lykilmönnum OpenAI.

Hún bauð Miðeind trúnaðarinnlit að nýjum módelum sem gæti nýst í vegferðinni okkar.

Villi, sem hluti af sendinefnd ráðherra, í rauðum kassa, ásamt Sam Altman forstjóra OpenAI.

Til að gera langa sögu stutta þá var svo 14. mars 2023 sem leyniverkefnið; GPT-4 útgáfa máltæknimódels OpenAI, kynnt til leiks á heimsvísu. Þá var samstarfi OpenAI íslenskra stjórnvalda og Miðeindar gert hátt undir höfði. Jafnframt var tilkynnt að íslenska yrði annað tungumálið, á eftir ensku, sem formlega yrði stutt af OpenAI.

Stórt skref. Mikill áfangi.

Íslandsvinirnir OpenAI

Samstarfið hefur síðan haldið áfram, með heimsóknum og fundum, meðal annars þar sem Lilja Alfreðsdóttir og sendinefnd hennar heimsóttu OpenAI síðasta vor. Ráðherra tók svo þátt í ráðstefnu með OpenAI í New York í haust þar sem áherslum sendinefndarinnar frá því um vorið var fylgt eftir.

Frá því Villi áreitti OpenAI með góðum árangri hefur íslensk máltækni fengið byr undir báða vængi með, þrautseigju, heppni en líka markvissri sókn og sérstaklega góðu samstarfi við OpenAI — en maður spyr sig. Hafa raunverulegir sigrar unnist?

Kannski, kannski ekki.

Sterk staða — Björt framtíð?

Í dag er staða íslenskrar máltækni betri en nokkru sinni fyrr. Stjórnvöld hafa sýnt framsýni og samstöðu og fjárfest í mikilvægum máltækniinnviðum, lögð hefur verið áhersla á að hagnýta þessa innviði og lagður grunnur að því hvernig gervigreind og máltækni munu geta mótað framtíð okkar. Með þessum aðgerðum hefur íslenskan fengið raunverulegan stafrænan meðbyr.

Ég er bjartsýnn. Samt smá óviss. Mun þetta hafa áhrif á framtíðina okkar?

Kannski, kannski ekki.

Auðveldara að funda um að breyta heiminum en að breyta heiminum

Við eigum enn langt í land — og það mun reyna á þrautseigju, þekkingu og kraft fjölda fólks. Ekki bara Villa, ráðherra eða forsetans. Það er auðvelt að gera ekki neitt, það er auðvelt að leyfa hlutunum að fljóta áfram og vona það besta.

Það er fullt af tækni sem hefur verið til lengi sem er ekki að hafa þau áhrif á okkur sem hún gæti haft ef við hefðum innleitt hana af einhverju viti. Í dag nýtum við gögn allt of lítið. Við sjálfvirknivæddum ekki af sama krafti og við hefðum getað gert fyrir 10–15 árum. Það getur farið eins fyrir gervigreindinni og máltækninni.

Því það þarf meira en bara örfáa eldhuga til að brjóta ölduna. Til þess að máltækni- og gervigreindarbyltingin verði að stórfljóti sem rennur um allt íslenskt samfélag þurfum við á sameiginlegu átaki að halda.

En munum við sjá þetta gerast?

Kannski, kannski ekki.

Nútíðin er öðruvísi en gamla framtíðin

Sannleikurinn er sá að við vitum ekki hvernig tæknin mun þróast eða hvernig framtíðin verður. Fyrir aðeins þremur árum settu okkar færustu sérfræðingar fram stefnu Íslands um gervigreind. Þessir sérfræðingar séu ekki fram á að risamállíkön eða lausnir eins og ChatGPT ættu eftir að koma fram af eins miklum krafti og raunin varð.

Sú framtíð sem þau sáu fyrir sér er allt önnur en okkar nútíð.

Þess vegna var ég ánægður með Áslaugu Örnu, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, nýlega þegar hún kynnti aðgerðaráætlun um gervigreind í stað þess að smíða nýja stefnu.

Eins og hún sagði sjálf: Í heimi gervigreindar er svo mikil hreyfing, að stefnur missa oft marks áður en þær ná að virka.

Við þurfum bara að byrja að gera. Ekki bara skrifa skýrslur.

Við höfum lagt grunninn, en nú er komið að okkur öllum — stjórnvöldum, fyrirtækjum, stofnunum og almenningi — að nýta þessa tækni til að tryggja íslenskunni stað í stafrænum heimi, segir Björgvin Ingi.

Það er nefnilega ekki hægt að segja hvernig þetta verður allt saman heldur þurfa stjórnvöld að búa til aðstæður og umgjörð sem er líkleg til þess að þetta hafi þau áhrif sem mögulegt er. Því hefur verið sinnt vel.

Við þurfum einfaldlega að byggja sveigjanlegt umhverfi — aðstæður og umgjörð sem gefur tækninni rými til að vaxa og styrkja stöðu íslenskunnar í síbreytilegum heimi.

Það næsta sem við þurfum að gera er að móta varanlega og lifandi umgjörð fyrir gervigreind og máltækni á Íslandi. Ég trúi því að núverandi stjórnvöld hafi skilið þetta mikilvægi og ég vona að framtíðarstjórnvöld okkar muni gera slíkt hið sama.

Kannski var þetta bara heppni

Verður máltæknin aðeins tæki til að skapa steiktar myndir í greinunum mínum og kynningum eða til að leyfa forseta að kalla fram íslenskan hest við foss á tveimur sekúndum?

Í gegnum tíðina höfum við oft látið tækifæri renna úr greipum okkar.

Gervigreindin, og sérstaklega máltæknin, gæti skipt sköpum fyrir íslenskuna en það gerist ekki af sjálfu sér.

Við þurfum öll að vera með — stjórnvöld, fyrirtæki og bara við hin. Þetta krefst fjárfestinga, já — en fyrst og fremst elju. Elju til að halda áfram að nýta tæknina og sjá til þess að íslenskan eigi stafræna framtíð.

Ég veit ekki hvort það gerist hratt eða yfir höfuð.

Það er nefnilega ekki hægt að segja hvernig þetta verður allt saman heldur þurfa stjórnvöld að búa til aðstæður og umgjörð sem er líkleg til þess að þetta hafi þau áhrif sem mögulegt er. Því hefur verið sinnt vel.

Kannski hefði ekkert gerst með okkar fínu máltækniferð með Guðna forseta og Lilju ráðherra um árið ef Villi hefði ekki pönkast lengi í OpenAI.

Kannski vorum við bara heppin. Þjóðarleiðtogi hafði aldrei beðið um fund með OpenAI þegar við mættum. Ef við hefðum beðið um fund ári seinna hefðu þau kannski ekkert tekið á móti okkur.

Við höfum lagt grunninn, en nú er komið að okkur öllum — stjórnvöldum, fyrirtækjum, stofnunum og almenningi — að nýta þessa tækni til að tryggja íslenskunni stað í stafrænum heimi.

Ég vona að máltæknin geti breytt framtíð íslenskunnar og aukið styrk okkar og samkeppnishæfni. Ég trúi á kraftinn okkar til að láta það gerast.

Munum við ná að gera þetta að veruleika?

Kannski, kannski ekki.

Höfundur er meðeigandi hjá Deloitte. Greinin byggir á erindi á máltækniþingi Almannaróms 11. nóvember 2024.






×