Arnór var leikmaður Helsingborgar árið 2014 þegar Djurgarden frá Stokkhólmi sótti borgina heim. Þeirri heimsókn fylgdi stór hópur fótboltabullna.
„Kolbilaðir stuðningsmenn. Eins og öll þessi stóru lið í Svíþjóð. Þeir fóru á hokkíleik á laugardeginum og svo voru í Helsingborg um nóttina. Það var reyndar ekki sofið mikið. Það var allt brotið og bramlað í bænum,“
„Svo fara þeir á fyrsta leik í deild, Helsingborg á móti Djurgarden daginn eftir,“ segir Arnór.
Skammt var liðið á þann leik þegar hópurinn í gestahluta stúkunnar strunsaði inn á völlinn.
„Maður hafði séð læti en ekki á þessu kaliberi. Að menn stormi völlinn og fari í alvöru handamerkingar við hina stuðningsmennina meðan á leik stendur,“ segir Arnór og bætir við:
„Okkur er bara sagt að drífa okkur inn í klefa. Sérsveitin mætir og hundar og allt gjörsamlega bilað. Þá höfðu stuðningsmenn Djurgarden frétt stuttu fyrir leik að stuðningmaður þeirra var laminn með flösku í hausinn. Hann dettur aftur fyrir sig og deyr,“
„Þetta var náttúrulega alveg hræðilegt. Maður trúði þessu ekki. Enginn gerði og þetta var mjög stórt mál í Svíþjóð. Það var ekki gaman að vera í þessum aðstæðum en að sama skapi eitthvað sem maður mun muna eftir alla ævi,“ segir Arnór.
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan og þá má einnig finna það á öllum helstu hlaðvarpsveitum í Besta sætinu.