Á síðasta stórmóti skoraði Óðinn líklega mark mótsins þegar hann fór inn úr horninu á móti Frökkum og skoraði með skoti fyrir aftan bak.
Óðinn er nú aftur kominn til móts við íslenska landsliðið og spilaði í sigri á Bosníumönnum í Laugardalshöllinni á miðvikudagskvöldið.
Myndband frá einni af æfingu íslenska liðsins í aðdraganda leiksins hefur vakið mikla lukku á netinu. Broti úr myndbandinu var meðal annars dreift á Youtube síðu evrópska handboltasambandsins, EHF Home of Handball.
Myndbandið birtist aftur á móti upphaflega í heild sinni á Instagram síðu Handknattleikssambands Íslands.
Óðinn sýnir þá, eins og flestir vita, að snúningarnir hans eru ekkert lamb að leika sér við.
Samfélagsstjóri HSÍ fékk þá Elvar Örn Jónsson og Óðinn í að keppa í tíu bolta áskoruninni. Þá reyna þeir að skora eins mörg mörk sem skotum fyrir utan punktalínuna en þeir verða að halda á öllum boltunum í einu.
Það má sjá þessa keppni þeirra félaga hér fyrir neðan og að lokum þennan nú fræga undrasnúning Óðins. Óðinn leit reyndar ekki vel út í keppninni sjálfri en það er lokaskotið sem bætir það allt upp.