Skoðun

Unga fólkið og frjó­semi

María Rut Baldursdóttir og Sigríður Auðunsdóttir skrifa

Hefur þú velt fyrir þér frjósemi þinni? Ef svo er á hvaða aldri varst þú þegar þessar pælingar þínar fóru af stað? Samkvæmt tölum Hagstofunnar hefur frjósemi aldrei verið minni á Íslandi frá því að mælingar hófust.

Í september síðastliðnum voru stofnuð samnorræn samtök um ófrjósemi í Helsinki Finnlandi. Því ber að fagna að Norðurlandaþjóðirnar séu að taka höndum saman í þeirri baráttu sem margir eru að glíma við. Nýstofnuðu samtökin sendu frá sér ályktun þess efnis, að stjórnvöld á Norðurlöndunum þyrftu að gera sér grein fyrir því að ungt fólk hefur ekki velt fyrir sér frjósemi sinni. Ungt fólk er nefnilega alls ekki að hugsa út slíkt, þar sem það er að njóta lífsins og hjá mörgum barneignir ekki á planinu hjá þeim næstu árin. Ungt fólk hefur jafnvel ekki vitneskju um alla þá þætti sem valda frjósemisvanda. Bráðabirgða niðurstöður úr Fertility Europe FActs! könnun sem hefur verið gerð meðal ungmenna í Evrópu sýnir þá niðurstöðu að aðeins 12% ungmenna vita að frjósemi fer minnkandi með aldrinum. 

Þetta eru ekki góðar niðurstöður og því skiptir öllu máli að ungt fólk fái þá fræðslu að 1 af hverjum 6 glímir við ófrjósemi og sú tala fari stækkandi. Frjósemisvandi er mun algengari en okkur grunar. Því er það mikilvægt að þegar fólk fer að huga að barneignum að það hafi fengið fræðslu um mismunandi vandamál sem valda frjósemisvanda og geri sér grein fyrir því að það getur tekið tíma að eignast barn. Ungt fólk verður að fá að heyra um allan þann fjölda sem hefur gengið í gegnum þá erfiðu vegferð að þurfa að leita sér aðstoðar við að eignast börn. Það á ekki að vera feimnismál að tala opinskátt um ófrjósemi, því allir þekkja einhvern sem hefur þurft að ganga í gegnum slíka vegferð. Uppfræðum unga fólkið um frjósemi.

Höfundar eru stjórnarmeðlimir í Tilveru- Samtökum um ófrjósemi




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×