Veður

Lægir en næsta lægð nálgast úr suðri

Atli Ísleifsson skrifar
Hiti á landinu verður á bilinu eitt til átta stig.
Hiti á landinu verður á bilinu eitt til átta stig. Vísir/Vilhelm

Það er suðvestanátt á landinu, hvasst norðantil fram eftir morgni en lægir síðan. Næsta lægð nálgast úr suðri í kvöld með vaxandi austanátt og rigningu, fyrst sunnanlands.

Þetta kemur fram á vef Veðurstofunnar. Þar segir að það verði smáskúrir vestanlands í dag en annars bjart veður. Hiti verður á bilinu eitt til átta stig.

„Í kvöld nálgast næsta lægð úr suðri með vaxandi austanátt og rigningu, fyrst sunnanlands.

Á morgun fer lægðin norður skammt fyrir vestan land. Henni fylgir hvöss sunnanátt með rigningu og hlýindum, en þurru veðri á norðaustanverðu landinu. Suðvestan stormur eða rok norðan heiða seint á morgun, en töluvert hægari syðra. Úrkoman fer yfir í skúri eða slydduél og það kólnar í veðri.

Næstu daga er útlit fyrir umhleypingasamt veður áfram,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Spákort fyrir klukkan 14 í dag.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á fimmtudag: Sunnan 15-23 m/s og rigning, en úrkomulítið á norðaustanverðu landinu. Hiti 8 til 16 stig, hlýjast norðaustantil. Dregur úr vætu síðdegis, fer að lægja sunnan- og vestanlands og kólnar.

Á föstudag: Suðlæg átt 3-10 og stöku skúrir eða slydduél, hiti 1 til 6 stig. Bjart veður á Norður- og Austurlandi með hita í kringum frostmark. Vaxandi suðaustanátt um kvöldið.

Á laugardag: Suðaustanátt og rigning með köflum, en úrkomulítið norðanlands. Hiti 4 til 10 stig.

Á sunnudag: Snýst í vestanátt með rigningu, en slyddu eða snjókomu til fjalla. Hiti 2 til 7 stig.

Á mánudag og þriðjudag: Útlit fyrir sunnanátt með rigningu og hlýindum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×