Fjallabyggð varð til 11. júní 2006 við sameiningu Ólafsfjarðarbæjar og Siglufjarðarkaupstaðar eftir sveitarstjórnarkosningar það ár. Sveitarfélagið er nyrst á Tröllaskaga. Flestir íbúar Fjallabyggðar búa í þéttbýliskjörnunum Siglufirði og Ólafsfirði en milli kjarnanna er um 16 kílómetra leið um Héðinsfjarðargöng.
„Og okkur er að fjölga en við erum komin upp í tæplega 2.030 íbúa og það er verið að byggja ný íbúðarhús og allskonar þjónustu,” segir Sigríður Ingvarsdóttir, bæjarstjóri Fjallabyggðar.
En það er einn galli á gjöf Njarðar, það vantar meira af fólki í Fjallabyggð til að vinna störfin, það eru helstu áhyggjur bæjarstjórans.
„Já, ef að einhver er að hugsa sér til flutnings þá er þetta rétti staðurinn. Hér er hægt að fá leikskólapláss frá eins árs aldri. Sem betur fer þá höfum við nú verið að horfa upp á það að unga fólkið er mikið að flytja til baka. Margt fólk, sem hefur farið til náms að það hefur svo náð sér í maka svona eins og gengur og gerist og það er að sýna sig að það er gott að koma til baka,” segir Sigríður.

Veturinn leggst vel í bæjarstjórann og íbúa Fjallabyggðar.
„Við höfum gert mikið út á vetrardýrðina og vetrarparadísina hérna því við erum með eitt besta skíðasvæði á landinu og svo höfum við líka verið að gera bæði á Ólafsfirði og Siglufirði út á gönguskíðanámskeið svo ég held að veturinn sé nýja ferðamannatímabilið hérna,” segir bæjarstjóri Fjallabyggðar.