Sport

Sjáðu lyfturnar: Mamma krýndi Ey­gló Evrópu­meistara og Guð­ný vann brons

Sindri Sverrisson skrifar
Eygló Fanndal Sturludóttir átti fullkominn dag í Póllandi í gær. Móðir hennar, Harpa Þorláksdóttir, fékk þann heiður að afhenda henni verðlaunin.
Eygló Fanndal Sturludóttir átti fullkominn dag í Póllandi í gær. Móðir hennar, Harpa Þorláksdóttir, fékk þann heiður að afhenda henni verðlaunin. @ewfsport

Tvær íslenskar konur stóðu saman á verðlaunapalli á Evrópumeistaramóti ungmenna í ólympíuskum lyftingum í Póllandi í gær. Myndbönd af lyftum þeirra má nú sjá á Vísi.

Eygló Fanndal Sturludóttir varð Evrópumeistari í -71 kg flokki, í hópi 23 ára og yngri, og setti um leið Norðurlandamet í fullorðinsflokki með samanlögðum árangri sínum.

Í ólympíuskum lyftingum er keppt í snörun (e. snatch) og jafnhendingu (e. clean & jerk), og samanlagðri þyngd. Eygló vann þannig þrenn gullverðlaun því hún lyfti mestu bæði í snörun og jafnhendingu.

Eygló Fanndal Sturludóttir með gullverðlaunin sín og Guðný Björk Stefánsdóttir með silfur og brons.@ewfsport

Eygló byrjaði reyndar á að missa 98 kg í fyrstu tilraun í snörun en bætti úr því og náði svo að snara upp 104 kg. Í jafnhendingu, þar sem stönginni er lyft upp í tveimur skrefum, náði hún að lyfta 133 kg. Samtals lyfti hún því 237 kg. Hér að neðan má sjá Eygló lyfta 133 kg í jafnhendingu.

Til marks um hve góður árangur Eyglóar er þá hefði hann dugað til 6. sætis á Ólympíuleikunum í París í sumar, en Eygló rétt missti af sæti á leikunum, og til silfurverðlauna á EM fullorðinna. Hún lyfti 26 kg meira en næsti keppandi í hennar flokki í Póllandi í gær. Móðir hennar, Harpa Þorláksdóttir, hlaut þann heiður að afhenda Eygló verðlaunin.

Guðný Björk Stefánsdóttir átti einnig frábæran dag í gær og vann til bronsverðlauna, í sama þyngdar- og aldursflokki og Eygló.

Guðný vann silfur í snörun með 96 kg lyftu, og í jafnhendingu lyfti hún 114 kg, svo samanlagt lyfti hún 210 kg. Hér að neðan má sjá Guðnýju í snöruninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×