Sport

Fresta aftur réttar­höldunum í morð­máli heims­meistarans

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rohan Dennis er ákærður fyrir að hafa verið undir stýri á bílnum sem banaði eiginkonu hans.
Rohan Dennis er ákærður fyrir að hafa verið undir stýri á bílnum sem banaði eiginkonu hans. Getty/Sara Cavallini

Réttarhöldunum gegn fyrrum heimsmeistara hefur verið frestað á ný en saksóknari vildi fá meiri tíma til að sviðsetja atburðinn.

Rohan Dennis, margfaldur heimsmeistari í götuhjólreiðum, er ákærður fyrir að myrða eiginkonu sína Melissa Hoskins, sem einnig var afrekskona í hjólreiðum.

Hinn 34 ára gamli Dennis á að hafa orðið eiginkonu sinni að bana með því að keyra á hana 30. desember 2023.

Dennis kom fyrir dómstólinn í Adelaide í Ástralíu 30. október síðastliðinn en lögmenn báðu um að fresta réttarhöldunum í þriðja sinn, nú til 10. desember.

Sú beiðni kom til vegna þess að ákæruvaldið vildi fá lengri tíma til að sviðsetja atvikið nákvæmlega. Dómarinn samþykkti beiðnina.

Verði hann dæmdur sekur gæti hann átt yfir höfði sér fimmtán ára fangelsi.

Dennis varð tvívegis heimsmeistari, 2018 og 2019, en hann endaði feril sinn í fyrra.

Eiginkona hans lést eftir að hafa orðið fyrir bíl en hún var 32 ára gömul. Þau áttu tvö börn saman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×