Körfubolti

„Sóknarlega vorum við að taka al­veg kexaðar á­kvarðanir oft á tíðum“

Stefán Marteinn Ólafsson skrifar
Rúnar Ingi Erlingsson, þjálfari Njarðvíkur, var ánægður með annan sigur liðsins í röð. 
Rúnar Ingi Erlingsson, þjálfari Njarðvíkur, var ánægður með annan sigur liðsins í röð.  Vísir/Diego

Njarðvík tók á móti Val í 5. umferð Bónus deild karla í IceMar-höllinni í kvöld. Bæði lið hafa verið á mikilli siglingu en það voru heimamenn í Njarðvík sem höfðu betur með sjö stigum í kvöld 101-94.

„Fyrst þá er ég mjög ánægður með tvö stig og annan sigurinn í röð hérna án Dwayne Lautier og með virklega flottu framlagi frá strákunum sem að komu af bekknum. Við vorum að finna lausnir og sýna á löngum köflum virkilega mikil gæði á báðum endum vallarins. Það er það sem ég er ánægður með.“ Sagði Rúnar Ingi Erlingsson þjálfari Njarðvíkur eftir sigurinn í kvöld.

„Ég viðurkenni líka að ég er alveg einstaklega pirraður yfir hvað við duttum á lágt plan hérna á kafla í seinni hálfleik. Heimskar ákvarðanir og við aftengjum okkur einhvernveginn. Það er eitthvað sem ég verð að vinna í.“

Njarðvíkingar voru eins og Rúnar Ingi kom inná án Dwayne Lautier-Ogunleye sem hefur verið einn besti leikmaður liðsins. Einhverjir höfðu áhyggjur af sóknarleik liðsins í upphafi tímabils og þá sérstaklega ef það myndi vanta sterkan póst eins og Dwayne Lautier.

„Þetta snýst mikið um það sem við erum að gera hérna inni og hvernig við finnum okkar styrkleika. Ég er að garga á suma að standa bara á ákveðnum stöðum og grípa og skjóta, gera einföldu hlutina á meðan aðrir eru mikið með boltann í höndunum. Menn hafa sín hlutverk og eru bara góðir í þeim.“

Njarðvík skoraði 101 stig gegn Val í sigrinum í kvöld og má segja að þetta hafi að einhverju leyti verið „statement sigur“.

„Við töluðum um það að vinna Íslandsmeistara Vals hérna á heimavelli og ná að stjórna tempóinu í leiknum án Dwayne, það væri statement og myndi þroska okkur að þurfa stíga upp og díla við öðruvísi leikmenn en við vorum að gera og betra lið eða betri einstaklings gæði heldur en við gerðum í Hattarleiknum í síðustu viku.“

„Mér finnst í raun stórskrítið að við höfum skorað 101 stig á þá því sóknarlega vorum við að taka alveg kexaðar ákvarðanir oft á tíðum og það verður örugglega langur video fundurinn í næstu viku þegar við förum yfir þennan leik.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×