Fótbolti

Albert ekki með gegn Genoa er Fiorentina vann fjórða leikinn í röð

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Vinstri bakvörðurinn Robin Gosens skoraði eina mark leiksins.
Vinstri bakvörðurinn Robin Gosens skoraði eina mark leiksins. Image Photo Agency/Getty Images

Fiorentina hefur fagnað frábæru gengi undanfarið í ítölsku úrvalsdeildinni, þrátt fyrir að Albert Guðmundsson sé frá vegna meiðsla. Liðið vann fjórða deildarleikinn í röð í dag, 1-0 gegn Genoa, liðinu sem Albert kom á láni frá.

Robin Gosens skoraði eina mark leiksins á 72. mínútu fyrir gestina frá Fiorentina og tryggði 0-1 sigur á útivelli. Þetta var fjórði sigurinn og sjötti leikurinn í röð án taps.

Albert skoraði þrjú mörk í fjórum leikjum áður en hann meiddist.Image Photo Agency/Getty Images

Fiorentina hefur unnið sig upp í fjórða sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar, jafnt Atalanta en stigi ofar en Juventus. Liðið endaði í 8. sæti á síðasta tímabili.

Albert hefur verið frá síðan 20. október vegna meiðsla á hægra læri sem hann varð fyrir á upphafsmínútunum í leik gegn Lecce. Óvíst er hvort hann verði klár fyrir landsleiki Íslands þann 16. og 19. nóvember næstkomandi.

Albert Guðmundsson fór á kostum með Genoa á síðasta tímabili. Hann var lánaður til Fiorentina í sumar en fastlega er gert ráð fyrir því að félagið festi kaup næsta sumar. EPA-EFE/STRINGER



Fleiri fréttir

Sjá meira


×