Uppgjörið: Álftanes - ÍR 93-87 | Hræðilegur fjórði leikhluti varð ÍR-ingum að falli Smári Jökull Jónsson skrifar 31. október 2024 20:58 vísir/anton Álftanes vann sinn annan sigur í röð í Bónus-deild karla eftir 93-87 sigur á ÍR í Forsetahöllinni í kvöld. ÍR er enn án sigurs eftir fimm leiki í deildinni. Leikurinn í kvöld var afar sveiflukenndur. ÍR komst í 9-2 í upphafi en þá skoruðu heimamenn tólf stig í röð og leiddu að lokum eftir fyrsta leikhluta 26-20. Þá kviknaði hins vegar á ÍR sóknarlega. Þeir hittu gríðarlega vel, skoruðu þrjátíu stig í öðrum leikhluta og staðan í hálfleik var 52-50 fyrir Álftanes en ÍR-ingar heldur betur að vakna. Í þriðja leikhluta héldu Breiðhyltingar áfram að spila vel í sókninni. Þeir komust yfir og náðu mest ellefu stiga forskoti. Á þessum tíma var varnarleikur Álftnesinga ekki nógu góður og þá fann Bandaríkjamaðurinn Andrew Jones ekki fjölina sína, en hann hafði skorað 20 stig í fyrri hálfleik og farið þá á kostum. Fyrir lokafjórðunginn var staðan 78-71 gestunum í vil sem sáu sinn fyrsta sigur í Bónus-deildinni í hyllingum. Þá hrökk hins vegar allt í baklás hjá ÍR. Þeir gátu ekki keypt sér körfu á meðan Álftanes, með Dúa Þór Jónsson í broddi fylkingar, gengu á lagið. Álftanes skoraði tólf stig í röð og þristur frá Hauki Helga Pálssyni þegar tæpar tvær mínútur voru eftir innsiglaði sigurinn. Lokatölur 93-87 en Álftanes vann fjórða leikhlutann 22-9. Atvik leiksins Viðsnúningur Álftnesinga í fjórða leikhluta átti sér stað á aðeins 3:05 mínútum. Þá skoruðu þeir tólf stig í röð, breyttu stöðunni úr 83-79 fyrir ÍR í 91-83 sér í vil á meðan allt var í skrúfunni hjá Breiðhyltingum í sókninni. ÍR-ingar tóku erfið skot og opin skot en hvað sem þeir reyndu þá vildi boltinn ekki niður. Stjörnur og skúrkar Dúi Þór Jónsson byrjaði á bekknum en hann hefur átt við bæði veikindi og meiðsli að stríða. Hann kom hins vegar inn af krafti í kvöld og var vítamínssprautan sem Álftnesingar þurftu þegar Dimitrios Klonaras fann ekki fjölina sína. Dúi Þór er einn af betri mönnum deildarinnar þegar hann er á sínum besta degi og það fengum við að sjá í kvöld. Dimitrios Klonaras steig aðeins upp í fjórða leikhluta en fram að því var hann í litlum takti við leikinn. Hann ætlaði sér oft að reyna of mikið sjálfur og það sást á Kjartani Atla þjálfara hversu pirraður hann var orðinn út í Grikkjann á tímabili. Dómararnir Eins og gengur og gerist rífast menn um hina og þessa dóma. Þeir Jón Þór Eyþórsson, Sigurbaldur Frímannsson og Aron Rúnarsson dæmdu heilt yfir nokkuð vel í kvöld og þó ÍR-ingar hafi verið nokkuð pirraðir út í dómgæsluna á tímabili þá hafði hún engin úrslitaáhrif í leiknum. Umgjörð og stemmning Það var fín stemmning í Forsetahöllinni og það þarf að gefa Álftnesingum hrós fyrir góða umgjörð. Þeir veittu verðlaun fyrir besta hrekkjavökubúninginn, fóru í leikinn „Hvar er Valli?“ með áhorfendum og leyfðu fólki að spreyta sig á miðjuskoti í hálfleik. Einfaldir og skemmtilegir hlutir sem hrista upp í fólki á milli þess sem það getur horft á flottan körfuboltaleik. Viðtöl „Ánægður með er að við getum virt það að kakan verður nógu stór ef allir eru með, þá fá allir að borða“ Kjartan Atli Kjartansson þjálfari Álftaness var ánægður með sigurinn gegn ÍR í kvöld en byrjaði á að fara yfir annan og þriðja leikhluta hjá sínu liði þar sem ÍR-ingar skoruðu tæplega 60 stig samtals. „Þeir komust náttúrulega á svakalegt áhlaup og settu niður sín skot og við vorum ekki nógu nálægt þeim. Þeir hlupu sínar sóknir vel og voru að svínhitta, voru 50% í þristum í hálfleik og sömuleiðis eftir þriðja leikhluta. Samt klikkuðu þeir á þremur síðustu þriggja stiga skotunum sínum. Þeir voru virkilega tilbúnir ÍR-ingar í þessum leik,“ sagði Kjartan Atli í samtali við Vísi eftir leik. „Vörnin okkar var ekki góð. Við lentum í smá þeytivindu en breyttum aðeins áherslunum þegar líða tók á leikinn. Síðan fundum við varnarákefðina í fjórða leikhluta fannst mér.“ Kjartan Atli sagðist ekki hafa bent sínum mönnum á að einhvern tíman hlyti hittni ÍR-liðsins að dvína. „Nei nei, við töluðum bara um hvernig við ætluðum að vera nær skyttunum og breyta hvað við vorum að gera á ákveðnum hindrunum og af boltanum. Við breyttum aðeins hvernig við nálguðumst þetta. Auðvitað finnst manni það virka þegar þeir hætta að hitta en auðvitað fengu þeir alveg opin skot sem þeir hittu ekki úr. Það er bara lögmál meðaltalsins. Við lögðum ekkert upp með það að þeir hættu að hitta, við lögðum bara upp með að spila betri vörn.“ Kjartan Atli ræðir við sína menn í leikhléi.Vísir/Anton Brink Dúi Þór Jónsson kom frábærlega inn hjá Álftnesingum eftir að hafa verið að glíma við bæði veikindi og meiðsli að undanförnu. Kjartan var ánægður með Dúa Þór í kvöld. „Dúi Þór var virkilega góður og hann hefur traust frá okkur og leikmannahópnum. Hann er góður með boltann, tekur góðar ákvarðanir undir lokin og gerði mjög vel. Hann er búinn að vera að glíma við bæði veikindi og meiðsli og við erum að trilla honum áfram. Hann var beitt vopn fyrir okkur í kvöld.“ Bandaríkjamaðurinn Andrew Jones skoraði 20 stig í fyrri hálfleik en bætti ekki fleirum við í þeim síðari fyrr en rúmar fjórar mínútur voru eftir. Kjartan hefur þó engar áhyggjur af Jones. „Þetta er bara þannig. Það sem ég er ánægður með er að við getum virt það að kakan verður nógu stór ef allir eru með, þá fá allir að borða. Það sem mér fannst hann gera vel, sérstaklega í lokin, hann var ekkert að stíga inn í leikinn að óþörfu heldur bara beið. Hann er rosalega góð skytta og dregur varnarmann út og opnar völlinn vel. Hann átti mjög góðan leik og setti persónulegt met á Íslandi í fráköstum. Ég var ánægður með hann og mjög marga.“ Að endingu hrósaði Kjartan ÍR-ingum fyrir góðan leik, en viðurkenndi þó að hann hefði líklega ekki verið til í að hlusta á þannig hrós frá þjálfara andstæðinganna eftir tapleik. „ÍR-ingar eru virkilega gott lið og vel þjálfaðir. Þeir komu með mjög gott leikplan inn í þennan leik, voru að ráðast á okkur á skipulagðan hátt og skytturnar áttu mjög góðan dag. Það er ekkert að ástæðulausu því þeir fengu ákveðin skot sem þeir vildu fá og voru að gera mjög vel. Risa hrós á ÍR.“ „Ég veit það er auðvelt fyrir mig að segja þetta en þeir áttu mjög góðan leik. Mér myndi ekki finnast gaman að heyra það eftir svona leik en hrós á þá fyrir hvernig þeir komu inn í þennan leik. Auðvitað horfir maður á hvað við getum gert betur en þá þarf líka að horfa á hitt liðið og hvað þeir gerðu vel.“ Dúi Þór: Mjög sáttur með minn leik í dag Dúi Þór Jónsson átti sinn besta leik í Bónus-deildinni til þessa en hann hefur verið að glíma við meiðsli í upphafi móts. Hann var ánægður með sína frammistöðu. „Jú klárlega. Ég er búinn að vera að eiga við smá meiðsli í hnénu en er að ná mér. Ég er mjög sáttur með minn leik í dag.“ Leikurinn í kvöld var afar sveiflukenndur og varnarleikur Álftnesinga ekki til útflutnings í öðrum og þriðja leikhluta. „Það er gott að ná í sigur. Við erum búnir að fara brösuglega af stað og mjög gott að ná í sigur og mikilvægt. Við vorum ekki að spila nógu góða vörn í 35 mínútur í dag. Í fjórða leikhluta vorum við að spila góða vörn en við erum þekktir fyrir að vera gott varnarlið og þurfum bara að gera betur.“ Dúi Þór Jónsson gerði 20 stig í kvöld.Vísir/Hulda Margrét Dúi Þór sagði að lið Álftnesinga væri að slípast betur saman en þetta var þriðji sigurleikur liðsins í röð í deild og bikar. „Þetta er töluvert breytt lið síðan í fyrra. Við erum bara að reyna að koma þessu í takt við hvern annan og það er mjög gott að vera komnir með þrjá sigurleiki í röð. Svo eru Haukar í næstu umferð og þar stefnum við á þann fjórða.“ Bónus-deild karla UMF Álftanes ÍR
Álftanes vann sinn annan sigur í röð í Bónus-deild karla eftir 93-87 sigur á ÍR í Forsetahöllinni í kvöld. ÍR er enn án sigurs eftir fimm leiki í deildinni. Leikurinn í kvöld var afar sveiflukenndur. ÍR komst í 9-2 í upphafi en þá skoruðu heimamenn tólf stig í röð og leiddu að lokum eftir fyrsta leikhluta 26-20. Þá kviknaði hins vegar á ÍR sóknarlega. Þeir hittu gríðarlega vel, skoruðu þrjátíu stig í öðrum leikhluta og staðan í hálfleik var 52-50 fyrir Álftanes en ÍR-ingar heldur betur að vakna. Í þriðja leikhluta héldu Breiðhyltingar áfram að spila vel í sókninni. Þeir komust yfir og náðu mest ellefu stiga forskoti. Á þessum tíma var varnarleikur Álftnesinga ekki nógu góður og þá fann Bandaríkjamaðurinn Andrew Jones ekki fjölina sína, en hann hafði skorað 20 stig í fyrri hálfleik og farið þá á kostum. Fyrir lokafjórðunginn var staðan 78-71 gestunum í vil sem sáu sinn fyrsta sigur í Bónus-deildinni í hyllingum. Þá hrökk hins vegar allt í baklás hjá ÍR. Þeir gátu ekki keypt sér körfu á meðan Álftanes, með Dúa Þór Jónsson í broddi fylkingar, gengu á lagið. Álftanes skoraði tólf stig í röð og þristur frá Hauki Helga Pálssyni þegar tæpar tvær mínútur voru eftir innsiglaði sigurinn. Lokatölur 93-87 en Álftanes vann fjórða leikhlutann 22-9. Atvik leiksins Viðsnúningur Álftnesinga í fjórða leikhluta átti sér stað á aðeins 3:05 mínútum. Þá skoruðu þeir tólf stig í röð, breyttu stöðunni úr 83-79 fyrir ÍR í 91-83 sér í vil á meðan allt var í skrúfunni hjá Breiðhyltingum í sókninni. ÍR-ingar tóku erfið skot og opin skot en hvað sem þeir reyndu þá vildi boltinn ekki niður. Stjörnur og skúrkar Dúi Þór Jónsson byrjaði á bekknum en hann hefur átt við bæði veikindi og meiðsli að stríða. Hann kom hins vegar inn af krafti í kvöld og var vítamínssprautan sem Álftnesingar þurftu þegar Dimitrios Klonaras fann ekki fjölina sína. Dúi Þór er einn af betri mönnum deildarinnar þegar hann er á sínum besta degi og það fengum við að sjá í kvöld. Dimitrios Klonaras steig aðeins upp í fjórða leikhluta en fram að því var hann í litlum takti við leikinn. Hann ætlaði sér oft að reyna of mikið sjálfur og það sást á Kjartani Atla þjálfara hversu pirraður hann var orðinn út í Grikkjann á tímabili. Dómararnir Eins og gengur og gerist rífast menn um hina og þessa dóma. Þeir Jón Þór Eyþórsson, Sigurbaldur Frímannsson og Aron Rúnarsson dæmdu heilt yfir nokkuð vel í kvöld og þó ÍR-ingar hafi verið nokkuð pirraðir út í dómgæsluna á tímabili þá hafði hún engin úrslitaáhrif í leiknum. Umgjörð og stemmning Það var fín stemmning í Forsetahöllinni og það þarf að gefa Álftnesingum hrós fyrir góða umgjörð. Þeir veittu verðlaun fyrir besta hrekkjavökubúninginn, fóru í leikinn „Hvar er Valli?“ með áhorfendum og leyfðu fólki að spreyta sig á miðjuskoti í hálfleik. Einfaldir og skemmtilegir hlutir sem hrista upp í fólki á milli þess sem það getur horft á flottan körfuboltaleik. Viðtöl „Ánægður með er að við getum virt það að kakan verður nógu stór ef allir eru með, þá fá allir að borða“ Kjartan Atli Kjartansson þjálfari Álftaness var ánægður með sigurinn gegn ÍR í kvöld en byrjaði á að fara yfir annan og þriðja leikhluta hjá sínu liði þar sem ÍR-ingar skoruðu tæplega 60 stig samtals. „Þeir komust náttúrulega á svakalegt áhlaup og settu niður sín skot og við vorum ekki nógu nálægt þeim. Þeir hlupu sínar sóknir vel og voru að svínhitta, voru 50% í þristum í hálfleik og sömuleiðis eftir þriðja leikhluta. Samt klikkuðu þeir á þremur síðustu þriggja stiga skotunum sínum. Þeir voru virkilega tilbúnir ÍR-ingar í þessum leik,“ sagði Kjartan Atli í samtali við Vísi eftir leik. „Vörnin okkar var ekki góð. Við lentum í smá þeytivindu en breyttum aðeins áherslunum þegar líða tók á leikinn. Síðan fundum við varnarákefðina í fjórða leikhluta fannst mér.“ Kjartan Atli sagðist ekki hafa bent sínum mönnum á að einhvern tíman hlyti hittni ÍR-liðsins að dvína. „Nei nei, við töluðum bara um hvernig við ætluðum að vera nær skyttunum og breyta hvað við vorum að gera á ákveðnum hindrunum og af boltanum. Við breyttum aðeins hvernig við nálguðumst þetta. Auðvitað finnst manni það virka þegar þeir hætta að hitta en auðvitað fengu þeir alveg opin skot sem þeir hittu ekki úr. Það er bara lögmál meðaltalsins. Við lögðum ekkert upp með það að þeir hættu að hitta, við lögðum bara upp með að spila betri vörn.“ Kjartan Atli ræðir við sína menn í leikhléi.Vísir/Anton Brink Dúi Þór Jónsson kom frábærlega inn hjá Álftnesingum eftir að hafa verið að glíma við bæði veikindi og meiðsli að undanförnu. Kjartan var ánægður með Dúa Þór í kvöld. „Dúi Þór var virkilega góður og hann hefur traust frá okkur og leikmannahópnum. Hann er góður með boltann, tekur góðar ákvarðanir undir lokin og gerði mjög vel. Hann er búinn að vera að glíma við bæði veikindi og meiðsli og við erum að trilla honum áfram. Hann var beitt vopn fyrir okkur í kvöld.“ Bandaríkjamaðurinn Andrew Jones skoraði 20 stig í fyrri hálfleik en bætti ekki fleirum við í þeim síðari fyrr en rúmar fjórar mínútur voru eftir. Kjartan hefur þó engar áhyggjur af Jones. „Þetta er bara þannig. Það sem ég er ánægður með er að við getum virt það að kakan verður nógu stór ef allir eru með, þá fá allir að borða. Það sem mér fannst hann gera vel, sérstaklega í lokin, hann var ekkert að stíga inn í leikinn að óþörfu heldur bara beið. Hann er rosalega góð skytta og dregur varnarmann út og opnar völlinn vel. Hann átti mjög góðan leik og setti persónulegt met á Íslandi í fráköstum. Ég var ánægður með hann og mjög marga.“ Að endingu hrósaði Kjartan ÍR-ingum fyrir góðan leik, en viðurkenndi þó að hann hefði líklega ekki verið til í að hlusta á þannig hrós frá þjálfara andstæðinganna eftir tapleik. „ÍR-ingar eru virkilega gott lið og vel þjálfaðir. Þeir komu með mjög gott leikplan inn í þennan leik, voru að ráðast á okkur á skipulagðan hátt og skytturnar áttu mjög góðan dag. Það er ekkert að ástæðulausu því þeir fengu ákveðin skot sem þeir vildu fá og voru að gera mjög vel. Risa hrós á ÍR.“ „Ég veit það er auðvelt fyrir mig að segja þetta en þeir áttu mjög góðan leik. Mér myndi ekki finnast gaman að heyra það eftir svona leik en hrós á þá fyrir hvernig þeir komu inn í þennan leik. Auðvitað horfir maður á hvað við getum gert betur en þá þarf líka að horfa á hitt liðið og hvað þeir gerðu vel.“ Dúi Þór: Mjög sáttur með minn leik í dag Dúi Þór Jónsson átti sinn besta leik í Bónus-deildinni til þessa en hann hefur verið að glíma við meiðsli í upphafi móts. Hann var ánægður með sína frammistöðu. „Jú klárlega. Ég er búinn að vera að eiga við smá meiðsli í hnénu en er að ná mér. Ég er mjög sáttur með minn leik í dag.“ Leikurinn í kvöld var afar sveiflukenndur og varnarleikur Álftnesinga ekki til útflutnings í öðrum og þriðja leikhluta. „Það er gott að ná í sigur. Við erum búnir að fara brösuglega af stað og mjög gott að ná í sigur og mikilvægt. Við vorum ekki að spila nógu góða vörn í 35 mínútur í dag. Í fjórða leikhluta vorum við að spila góða vörn en við erum þekktir fyrir að vera gott varnarlið og þurfum bara að gera betur.“ Dúi Þór Jónsson gerði 20 stig í kvöld.Vísir/Hulda Margrét Dúi Þór sagði að lið Álftnesinga væri að slípast betur saman en þetta var þriðji sigurleikur liðsins í röð í deild og bikar. „Þetta er töluvert breytt lið síðan í fyrra. Við erum bara að reyna að koma þessu í takt við hvern annan og það er mjög gott að vera komnir með þrjá sigurleiki í röð. Svo eru Haukar í næstu umferð og þar stefnum við á þann fjórða.“
Körfuboltakvöld rifjaði upp gamlar minningar: Hermann skammaðist sín fyrir slaufuna og gelið í hárinu